Þreyta? Vísindamenn hafa sett fram fjölmargar tilgátur um geispann.
Þreyta? Vísindamenn hafa sett fram fjölmargar tilgátur um geispann. — AFP
Af hverju geispum við?

Af hverju geispum við? Í fjölda ára hafa vísindamenn leitast við að svara þeirri spurningu en nú hefur bandaríski sálfræðiprófessorinn Andrew Gallup sett fram nýja kenningu, sem leysir ekki bara ráðgátuna, heldur sameinar fyrri kenningar undir einum hatti.

Gallup var enn við nám þegar honum datt í hug að e.t.v. þjónaði geispinn því hlutverki að kæla heilann, en tilgáta hans er sú að kjálkahreyfingin auki blóðflæði umhverfis höfuðkúpuna og hjálpi þannig til við að flytja burt umframhita og að djúp innöndunin leiði kalt loft upp nefholið, umhverfis hálsslagæðina og aftur í heila. Þá telur hann að andlitshreyfingarnar lofti um ganga og holur í andlitsbeinunum og þurrki þannig upp slím, sem ætti að kæla höfuðið líkt og loftræsting.

Í grein sem birtist á vef BBC segir frá rannsóknum Gallups, sem leiddu í ljós að 48% fólks fundu til geispiþarfar við venjulegar kringumstæður en þegar það var beðið um að halda köldum bakstri að enninu létu aðeins 9% verða af geispanum. Þá reyndist afar áhrifaríkt að biðja fólk um að anda í gegnum nefið, sem mögulega kælir heilann, en það slökkti algjörlega geispiþörf tilraunadýranna. Gallup bað einnig tvær konur sem þjáðust af krónískum geispa að mæla líkamshita sinn fyrir og eftir köstin og komst að því að hann jókst lítillega fyrir en var orðinn lægri þegar köstin voru yfirstaðin.

Kenningin kann að útskýra af hverju við geispum á morgnana og kvöldin, þar sem líkamshitinn eykst fyrir og eftir svefn. Þá kann örlítil kæling að hjálpa okkur til að halda athygli, sem gæti útskýrt af hverju við geispum þegar okkur leiðist. Þess ber að geta að kenning Gallups er umdeild meðal vísindamanna, sem segja m.a. að hann þurfi að styðja mál sitt með frekari rannsóknum.