Sveinn Rúnar Hauksson
Sveinn Rúnar Hauksson
Eftir Svein Rúnar Hauksson: "Biðjum heitt fyrir því, að ráðamenn Ísraelsríkis verði slegnir þvílíku höggi andans, að þeir breytist aftur í manneskjur, einsog þeir fæddust."

Ég hef undanfarinn mánuð verið í símasambandi flesta daga við vini mína á Gaza. Besti vinur minn, Ali Abu Afash, bjó í fjögurra hæða húsi, á þriðju hæð með Shirene sem er barnalæknir og dætrum þeirra, Majd og Wajd, tveggja og fimm ára, afi og amma á 2. hæð. Eldri bróðir var á fjórðu hæð með sína fjölskyldu og á fyrstu hæð Muhameð, yngsti bróðirinn með konu og börn. Fyrir hálfum mánuði bættust við þrjátíu manns á fyrstu hæðina, tengdafólk Múhameðs, sem náði að flýja heimili sitt á Norður-Gaza áður en það var eyðilagt. Nú á Ali, dætur hans og stórfjölskyldan ekkert heimili. Guði sé lof, að þau sluppu lifandi áður en heimilið varð fyrir sprengjum Ísraelshers.

Sömu sögu er að segja af vini mínum Omari Ferwana, deildarforseta i læknadeild, og fjölskyldu sem ég heimsótti hvað mest í síðustu dvöl á Gaza fyrir hálfu ári. Þau sluppu líka áður en sprengjur eyðilögðu heimili þeirra og búa hjá skyldfólki. Raghad, sjö ára vinkona mín, leikur sér ekki lengur í rólunni úti í aldingarðinum hjá afa og ömmu. Hún er líkamlega ómeidd, en hún er reið. Hún vill ganga frá Netanyahu sem eyðilagði heimili hennar.

Þegar þetta er ritað, á hvíldardegi gyðinga, hefur Ísraelsher myrt 450 börn og alls 1922 einstaklinga. Þessar tölur, sem eru síðan í gær, eru hærri í dag vegna áframhaldandi sprengjuárása. Þær fara þess utan hækkandi því að þegar ráðrúm gefst er verið að grafa lík úr rústum og börn og fullorðnir að deyja af sárum sínum á sjúkrahúsum. Þar veldur skorturinn miklu, skortur á lyfjum, lækningatækjum, rafmagni og hreinu vatni.

Sprengjuárásir eru gerðar á skóla, skýli fyrir flóttafólk, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og ekki síst á heimili fólks sem sprengd eru í loft upp og heilu stórfjölskyldurnar þurrkaðar út. Þetta ómennska framferði Ísraelsstjórnar og herforingja hennar er kallað að slá grasið. Þeir segja að það þurfi að slá flötina af og til.

Við verðum að geta treyst því að þessir stríðsglæpamenn verði dregnir fyrir dómstól, Alþjóðaglæpadómstólinn. Ef þetta framferði fær að viðgangast refsilaust heldur það áfram og versnar.

En kannski er okkur nær að huga að þeim sem lifa? Um 10 þúsund manns liggja eftir særðir, þar af þúsundir barna, mörg örkumla. „Af hverju sé ég ekki neitt og heyri ekki neitt,“ spurði átta ára drengur sem lifði af sprengjuárás á heimili sitt. Og síðan stærsti hópurinn sem slapp ómeiddur, líkamlega, en á ekkert heimili og mun bera sálrænar afleiðingar árása Ísraelshers um ókomna tíð.

Biskup Íslands hefur beðið okkur að biðja fyrir friði og fórnarlömbum stríðsins. Ég segi: Við þurfum ekki að biðja fyrir palestínsku börnunum sem voru myrt af Ísraelsher. Það voru englar á hverju strái sem tóku börnin í fang sér og flugu með þau á svipstundu til himna. Og það er englamergð á Gazaströnd sem vakir yfir börnunum sem lifa og þeim sem liggja særð á sjúkrahúsum.

En við þurfum að biðja fyrir Ísraelsmönnum. Við þurfum að biðja fyrir forhertum sálum fjöldamorðingjanna sem stjórna ríki sem heitir því fallega nafni Ísrael. Þetta ríki vilja þeir kalla Gyðingaríki, enda þótt meira en fimmtungur landsmanna séu Palestínumenn, kristnir og múslimar.

Það versta er þó að blanda þessu ríki við gyðingdóm og gyðinga almennt. Gyðingar eiga betra skilið og trú þeirra á líka betra skilið en að vera blandað saman við þá ómennsku og botnlausu grimmd sem heimsbyggðin þarf að horfa upp á.

Biðjum fyrir Ísrael. Hvort sem við trúum á Guð, einhvern æðri mátt eða okkur sjálf, þá biðjum heitt fyrir því að ráðamenn Ísraelsríkis verði slegnir þvílíku höggi andans, að þeir breytist aftur í manneskjur, einsog þeir fæddust. Biðjum fyrir herforingjunum og stjórnmálamönnunum í Ísrael, að hjarta þeirra mýkist, að þeir hætti að geta hugsað sér að myrða börn og hætti að ala upp kynslóð eftir kynslóð af ungu í fólki í Ísrael, í anda kynþáttahaturs og algers miskunnarleysis gagnvart jafnöldrum sínum í næsta húsi.

Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland-Palestína.