Stjórinn „Skrúðgangan hefur stækkað ár frá ári og því þorði ég ekki annað en að biðja um formlegt leyfi fyrir göngunni hjá lögreglunni í ár, sem er í höfn. Nú vonumst við bara eftir góðu veðri,“ segir Pétur Grétarsson.
Stjórinn „Skrúðgangan hefur stækkað ár frá ári og því þorði ég ekki annað en að biðja um formlegt leyfi fyrir göngunni hjá lögreglunni í ár, sem er í höfn. Nú vonumst við bara eftir góðu veðri,“ segir Pétur Grétarsson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ég held að menn ætlist ekki til þess þegar farið er af stað með svona hátíð að hún endist áratugum saman og þeim mun ánægjulegra er að fagna 25. hátíðinni þetta árið.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég held að menn ætlist ekki til þess þegar farið er af stað með svona hátíð að hún endist áratugum saman og þeim mun ánægjulegra er að fagna 25. hátíðinni þetta árið. Að mínu mati felst lykillinn að langlífi Jazzhátíðar Reykjavíkur í því að músíkin er í eðli sínu síbreytileg og því gengur tónlistin ávallt út á ákveðna endurnýjun. Þeir sem þessa músík stunda eru iðnir við að leita að nýjum flötum í sínum eigin hljóm,“ segir Pétur Grétarsson, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri Jazzhátíðar Reykjavíkur sem sett verður í 25. sinn í Hörpu annað kvöld og stendur til 20. ágúst. Hátíðin í ár er sú 8. sem Pétur stýrir og jafnframt sú síðasta. „Því það er kominn tími til að skipta um mann í brúnni, enda mikilvægt að hátíðir á borð við þessa fái tækifæri til að endurnýja sig reglulega með nýju fólki.“

Að sögn Péturs verður næstu vikuna boðið upp á hartnær 40 tónlistarviðburði á hátíðinni þar sem fram koma hátt í 200 manns. „Markmið okkar er að bjóða upp á bitastæða tónlist fyrir sem flesta. Við erum með mjög breiða pallettu, allt frá hefðbundinni sveiflu yfir í harðkjarnaspuna og allt þar á milli. Í ár verður nokkur áhersla á heimstónlist, en fyrst og fremst reynum við að bjóða upp á mjög góða og skemmtilega tónlist.“

Þriðja árið í röð hefst Jazzhátíð Reykjavíkur á skrúðgöngu, en á morgun kl. 17.30 verður gengið frá Lucky Records við Hlemm að tónlistarhúsinu Hörpu. „Skrúðgangan hefur stækkað ár frá ári og því þorði ég ekki annað en að biðja um formlegt leyfi fyrir göngunni hjá lögreglunni í ár, sem er í höfn. Nú vonumst við bara eftir góðu veðri.“

Í fyrsta sinn í ár fer hátíðin öll fram í Hörpu. „Við höfum alltaf verið eitthvað í Hörpu frá því tónlistarhúsið var opnað og erum því meðal frumbyggja hússins. Í ár ákváðum við að prófa að vera alfarið í Hörpu,“ segir Pétur og tekur fram að þar með losni skipuleggjendur við ákveðna verkfræðilega martröð. „Því það eru svo fáir staðir í Reykjavík sem eru útbúnir til tónleikahalds með fullbúnu hljóðkerfi og píanói,“ segir Pétur og tekur fram að hátíðin verði á ýmsum stöðum í Hörpu næstu daga, m.a. á Hörpuhorninu, á Björtuloftum, í Norðurljósum, Kaldalóni og Eldborg.

Mikið af kunnuglegum nöfnum

Spurður um áherslur í ár segir Pétur að í tilefni afmælisins hafi hann horft yfir farinn veg og falast eftir því að fá aftur til liðs við hátíðina tónlistarmenn sem hafi gert góða hluti á hátíðinni áður. „Það er því talsvert af kunnuglegum nöfnum þetta árið. Hátíðin í ár hefst með tónleikum saxófónleikarans Chris Speed og hljómsveitar hans á Björtuloftum annað kvöld kl. 20. Klukkutíma síðar stígur á stokk í Norðurljósum heitasta salsaband samtímans, kvartett söngvarans og kongaleikarans Pedrito Martinez frá Kúbu. Föstudaginn 15. ágúst verðum við með tvo mjög flotta ameríska trommara. Annars vegar er það trommuleikarinn Ari Hoening sem kemur hingað sem gestur Andrésar Þórs Gunnlaugssonar gítarleikara. Þeir tónleikar verða á Björtuloftum kl. 20 og með þeim koma fram píanóleikarinn Agnar Már Magnússon og kontrabassaleikarinn Richard Andersson. Hins vegar er það Jim Black sem er gamall vinur hátíðarinnar og lagt hefur leið sína hingað reglulega sl. 20 ár. Tónleikar hans verða í Norðurljósasal Hörpu kl. 21 og með honum koma fram píanóleikarinn Elias Stemeseder, bassaleikarinn Chris Tordini og tenórsaxófónleikarinn Óskar Guðjónsson,“ segir Pétur og tekur fram að tengslamyndunin milli íslenskra og erlendra tónlistarmanna á umliðnum árum sé orðin skemmtilegur vefur.

„Þessi tengsl auðga íslenskt tónlistarlíf. Þess vegna tökum við hlutverk okkar þess efnis að styðja við þessa tengslamyndun mjög alvarlega,“ segir Pétur og bendir á að erlendir gestir hátíðarinnar veiti því gjarnan eftirtekt hversu íslenskir tónlistarmenn eru iðulega í mörgum böndum. „Ég nefni menn eins og Óskar Guðjónsson sem var tónleikakóngurinn á Jazzhátíðinni árið 2009, en þá lék hann á alls 23 tónleikum á aðeins einni hátíð.“

Tónleikaþrenna í Eldborg

Af öðrum viðburðum hátíðarinnar nefnir Pétur útgáfutónleika kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar í Norðurljósum 17. ágúst kl. 20 þar sem söngkonan Sigríður Thorlacius kemur m.a. fram. Síðar sama kvöld verður Snorri Sigurðarson trompetleikari með útgáfutónleika í Norðurljósum kl. 23. Laugardaginn 16. ágúst kemur Valdimar Guðmundsson söngvari fram með K tríói á Björtuloftum kl. 23. „Mánudaginn 18. ágúst leikur hljómsveitin Annes í Norðurljósum kl. 21. Þar eru saman komnir einhverjir flottustu hljóðfæraleikarar sem Íslendingar eiga í einni hljómsveit, þ.e. Ari Bragi Kárason trompetleikari, Jóel Pálsson saxófónleikari, Eyþór Gunnarsson píanóleikari, Guðmundur Pétursson gítarleikari og Einar Scheving trommuleikari. Það sama kvöld kemur Aurora fram á Björtuloftum kl. 22, en þar eru á ferðinni strákar sem verða fulltrúar Íslands í keppninni Young Nordic Jazz Comets sem haldin verður í Helsinki í september. Þriðjudaginn 19. ágúst kemur trompettleikarinn Arve Henriksen fram í Norðurljósum kl. 20 ásamt Skúla Sverrissyni á bassa og Hilmari Jenssyni á gítar. Það sama kvöld verður Sigurður Flosason saxófónleikari með Kaupmannahafnarkvartettinn sinn í Norðurljósum kl. 22. Sérstakur gestur tónleikanna er bandaríski píanistinn Aaron Park.“

Lokadagur hátíðarinnar fer allur fram í Eldborg, en þar verður, að sögn Péturs, boðið upp á þrenna tónleika sem endurspegla þá miklu breidd sem einkennir hátíðina í ár. Klukkan 19.30 leikur pólskur fiðlusnillingur sem heitir Adam Baldych nútímalega tónlist á hefðbundnum grunni. Klukkan 21 kemur Mats Gustafsson fram undir merkjum tríósins The Thing og býður upp á harðkjarnadjass. „Það getur verið þungmelt að meðtaka harðkjarnadjass á plötu, en þeim mun skemmtilegra að uppgötva efnið á tónleikum enda býður tónlistin upp á sjónræn tilþrif. Lokatónleikar hátíðarinnar hefjast kl. 22.30 og þar kemur fram ein helsta skrautfjöður íslenskrar instrumental-tónlistar, ADHD.“

Hvar eru konurnar?

Eitt af því sem Pétur er sérlega stoltur af þetta árið er að hugað verður að tónlistarkonum í djassheiminum. „Ég er iðulega spurður að því hvar konurnar séu í djassinum. Við ákváðum því að gera eitthvað í þessu í ár og erum stolt af því að bjóða upp á alþjóðlega vinnusmiðju fyrir konur í djassmúsík. Það sem vakir fyrir okkur er að fá fyrirmyndir á hljóðfæri sem stelpur og konur laðast almennt ekki að, eins og bassa og trommur. Þær eru meira á píanó og í söngnum. Við bjóðum hingað kontrabassaleikaranum Ellen Andreu Wang frá Noregi, trommuleikaranum Daisy Palmer frá Bretlandi og saxófónleikaranum Nicole Johänntgen frá Þýskalandi sem munu ganga í lið með stormsveit íslenskra kvenna, þeirra á meðal Ragnheiði Gröndal, Kristjönu Stefánsdóttur og Sunnu Gunnlaugsdóttur. Þær halda tónleika á Björtuloftum laugardaginn 16. ágúst kl. 21 og verða síðan með vinnusmiðju í Kaldalóni sunnudaginn 17. ágúst milli kl. 10 og 13, en undir lok vinnusmiðjunnar verður afraksturinn kynntur á tónleikum þar sem aðgangur er ókeypis,“ segir Pétur og tekur fram að enn séu laus pláss í vinnusmiðjunni, en tekið er við skráningum á vef hátíðarinnar.

Allar nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar eru á vefnum reykjavikjazz.is/. Miðasala fer fram í Hörpu og á vefnum harpa.is.