Síðustu ár höfum við Íslendingar hreykt okkur af því að eiga þjálfara bestu félagsliðanna í sterkustu handboltadeild í heimi, í Þýskalandi. Nú getum við sagt að íslenskir handboltaþjálfarar hafi tekið þetta á enn hærra plan.
Síðustu ár höfum við Íslendingar hreykt okkur af því að eiga þjálfara bestu félagsliðanna í sterkustu handboltadeild í heimi, í Þýskalandi. Nú getum við sagt að íslenskir handboltaþjálfarar hafi tekið þetta á enn hærra plan.

Nú höfum við Íslendinga sem landsliðsþjálfara víðs vegar um Evrópu. Guðmundur Guðmundsson stýrir nú Danmörku, einu sterkasta landsliði í heimi, Dagur Sigurðsson hefur verið ráðinn þjálfari þýska landsliðsins, þar sem kröfur eru gerðar um að Þýskaland komist aftur í fremstu röð. Þá hefur Patrekur Jóhannesson sýnt snilli sína með Austurríki sem er á leið á sitt annað stórmót í röð.

Það liggur við að það vanti bara að landslið eins og Frakkland, Spánn eða Króatía sjái líka ljósið og eltist við menn eins og Alfreð Gíslason. Þá gætum við jafnvel séð Íslending stýra landsliði til verðlauna á hverju stórmóti næstu árin.

Svo má auðvitað ekki gleyma Selfyssingnum Þóri Hergeirssyni sem þjálfar norska kvennalandsliðið í handbolta, sem hefur verið jafnbesta kvennalandslið heims síðasta áratuginn eða svo.

Já, þetta lítur allt saman vel út á pappírum – nema kannski að íslensku landsliðin verða ekki á EM kvenna í desember eða HM karla í janúar.

Vonandi lifnar þó strax aftur yfir þeim. Þau voru nú komin á flug. Verðlaun hjá karlalandsliðinu á ÓL 2008 og EM 2010 og svo nokkur flott mót í kjölfarið. Svo fór kvennalandsliðið á þrjú stórmót í röð, en missir nú í desember af öðru stórmótinu í röð.