Óðinn Logi Benediktsson fæddist í Stykkishólmi 22. febrúar 1960. Hann lést á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi 31. júlí 2014.

Foreldrar hans eru Benedikt Lárusson, f. 18. mars 1924 og Kristín Björnsdóttir, f. 24. október 1931. Systkini Óðins eru: Eyþór, f. 28.10. 1952, Ingibjörg Hildur, f. 15.10. 1954, Bryndís, f. 22.11. 1956, Björn, f. 30.11. 1957, Lára, f. 28.9. 1963 og Ellert Þór, f. 30.3. 1967, d. 25.3. 2013.

Óðinn lauk grunnskóla í Stykkishólmi 1976 og starfaði eftir það sem verslunarmaður í Vöruhúsinu Hólmkjöri í Stykkishólmi. Árið 1979 hóf hann störf hjá Sláturfélagi Suðurlands í Reykjavík og lauk námi í kjötiðn 1983. Að loknu námi starfaði hann sem verslunar- og kjötiðnaðarmaður hjá Hólmkjöri í Stykkishólmi og fleirum til ársins 2000 þegar hann fluttist á Hellu. Þar starfaði hann hjá Goða og síðar Sláturfélagi Suðurlands og vann hjá SS allt þar til hann þurfti að láta af störfum vegna veikinda.

Árið 2003 greindist Óðinn með bandvefssjúkdóminn herslimein, sem á fáum árum eyðilagði í honum bæði lungun. Hann fór í lungnaskipti árið 2007 og fékk nýtt lunga. Aðgerðin heppnaðist vel og átti hann í kjölfarið sex góð ár sem hann nýtti til endurhæfingar. Hann stundaði nám í Hringsjá 2008 – 2009 og lauk námi á skrifstofubraut í MK árið 2010.

Óðinn Logi var vinmargur og vel látinn í störfum sínum sem verslunar- og kjötiðnaðarmaður. Hann var félagslyndur og starfaði í Stykkishólmi m.a. með JC hreyfingunni, Leikfélaginu Grímni og var um tíma í stjórn Körfuknattleiksdeildar Snæfells. Eftir að Óðinn veiktist var hann virkur í störfum Samtaka lungnasjúklinga og var gjaldkeri þeirra 2009-2013.

Helsta áhugamál Óðins allt frá barnæsku var hestamennska og hann tók virkan þátt í félagsstarfi hestamanna í Stykkishólmi og á Snæfellsnesi meðan hann bjó þar. Hestamennskuna stundaði hann allt þar til hann varð að hætta vegna veikinda.

Óðinn Logi var ókvæntur og barnlaus.

Útför hans fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 13. ágúst 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveð ég kæran bróður og minningarnar streyma fram.

Ég var ekki glöð að þurfa að deila herbergi með bræðrum mínum þegar ég var yngri og grátbað um sérherbergi, en svo nokkrum árum seinna var ég svo heppin að þegar ég fór til Reykjavíkur í framhaldsskóla , þá fékk ég að búa hjá Óðni, við leigðum saman í tvö ár og ekki er hægt að hugsa sé þægilegri meðleigjanda. Óðinn var mjög samviskusamur og vildi alltaf standa sig 100% í öllu sem hann gerði, hvort sem það var vinnan eða hestamennskan sem var hans aðaláhugamál. Hann hafði líka gaman af segja brandara og var ekki eins og við hin að gleyma þeim um leið, en hann gaf sér líka góðan tíma í að segja brandarann og hló með sjálfum sér um leið og hann sagði frá.

Þegar Óðinn greindist með sjúkdóminn fyrir 12 árum fannst honum verst að þurfa að hætta að vinna, en aldrei nokkurn tímann varð ég var við neikvæðni eða reiði hjá honum, hann tók þessum veikindum af sinni allkunnu ró og jafnaðargeði. Hann var mjög lélegur sjúklingur, kvartaði aldrei nokkurn tímann og vildi alltaf gera lítið úr öllu. Hann var alltaf að hugsa um aðra og setti sjálfan sig aldrei í fyrsta sætið. Í byrjun júli kom ég til hans og sá að honum leið ekki vel og spurði hvort honum væri að versna. Nei, ég er bara latur, svaraði Óðinn.

Við erum búin að eiga margar samverustundir undanfarin ár og það verður skrítið að geta ekki farið í heimsókn með sérbakað vínarbrauð og drukkið kaffi með honum og rætt um menn og málefni eins og við vorum vön að gera. Það sem hjálpar mér í gegnum þessar sorgarstundir núna er tilhugsunin um að núna líður Óðni vel.

Takk fyrir samveruna.

Lára.

Við minnumst Óðins með miklum söknuði. Hann var stóri frændi okkar sem gaf sér alltaf tíma fyrir okkur börnin. Hann var góður vinur, gaf sér alltaf tíma til að hlusta og gefa góð ráð. Einnig var hann ófeiminn við að gera athugasemdir um allt og ekkert sem maður gerði, og gerði ekki. Hann var stríðinn, eins og stóru frændur eiga að vera en allt var það í góðu gamni gert.

Sum okkar unnu með honum í Hólmkjöri þar sem margir minnast hans bakvið kjötborðið í hvíta sloppnum. Hann átti auðvelt með að kynnast fólki og virtist þekkja alla sem á vegi hans urðu, enda voru allir jafnir fyrir honum. Hann var áhugasamur um annað fólk og hvað það væri að gera, hvort sem það voru náskyldir eða aðrir. Þegar hann var ekki í hvíta sloppnum við kjötborðið mátti finna hann uppi í hesthúsum að sinna hestunum sínum.

Hann var bæði glöggur og viðræðugóður og ef sá gállinn var á honum alveg þrælskemmtilegur. Hann var lúmskur húmoristi og ágætur sögumaður sem kunni fjöldann allan af skemmtilegum tækifærissögum af frændum og vinum. Óðinn var nægjusamur og kvartaði aldrei þó að hann hafi verið mikið veikur undir það síðasta. Hann ætlaði sér að stíga upp úr sjúklingshlutverkinu en þegar ljóst var að það myndi ekki nást kvartaði hann ekki. Stuttu eftir lungnaskiptin fór hann í ferð til Spánar til að vera viðstaddur skírn frænda síns og sýnir það vel hversu mikilvægt það var honum að vera í faðmi fjölskyldunnar.

Þótt að við vissum í hvað stefndi er alltaf erfitt að kveðja. Við minnumst góðs frænda og mikils húmorista sem verður sárt saknað og sendum við samúðarkveðjur til systkina hans og ömmu og afa.

Fyrir hönd systkinabarna,

Gísli Sveinn Gretarsson.

Þegar þær fréttir bárust að afar kær vinur, Óðinn Benediktsson, hefði kvatt, þustu fram minningarkorn um ógleymanlegar stundir sem við áttum saman. Það sem kornin eiga sameiginlegt er að alltaf var gaman að vera nálægt Óðni og skipti þá engu máli hvort við vorum í kjötvinnsluherberginu í Hólmkjöri, á hestbaki eða étandi konfekt og horfandi á upptökur fra landsmótum hestamanna, langt fram á nótt.

Ein er þó sú minning sem skýrust er, en það er þegar Óðinn reið með okkur á Löngufjörum sumarið 2012. Þessi reiðtúr var sá fyrsti hjá Óðni í mörg ár en veikindi hans höfðu hamlað því í nokkur ár að hann gæti stundað sitt hjartkæra áhugamál. Það var gleði, það var gaman, fuglar sungu, hófatök 60 fáka glumdu í sandinum og sólin skein. Þarna átti Óðinn heima, þeysandi á góðum hesti, meðal ættingja og vina. Því miður urðu reiðtúrarnir sem við fórum saman ekki fleiri. Fuglar flugu til lands, fákar veltu sér í grasinu eftir gott dagsverk og sólin hneig til viðar.

Ég kveð kæran félaga. Eftir lifir minning um vin sem tókst á við lífið með jákvæðni, húmor, auðmýkt og ótrúlegu æðruleysi. Hugur minn er hjá fjölskyldu Óðins sem hefur þurft að sjá á eftir bræðrunum Ella og Óðni med stuttu millibili. Guð gefi ykkur styrk.

Lárus Ástmar Hannesson.

Við Óðinn kynntumst þegar ég var kosinn í stjórn Samtaka lungnasjúklinga og strax tókst með okkur góð vinátta. Hann var gjaldkeri Samtaka lungnasjúklinga frá 2009 til 2013 og skilaði þeirri vinnu af mikilli samviskusemi. Hann bar hag samtakanna alltaf fyrir brjósti og var honum þakkað af endurskoðendum samtakanna fyrir góðan frágang á ársreikningunum á hverjum aðalfundi. Einnig tók hann þátt í mörgum SÍBS þingum fyrir hönd samtakanna. Óðinn mætti alltaf í spjall og kaffi á mánudögum þar sem við lungnasjúklingar hittumst og stöppum stálinu hvert í annað. Hann var duglegur að koma með brandara og sagði ýmsar sögur sem við veltumst um af hlátri yfir. Það eru mikil forréttindi að hafa kynnast svona hetju. Aldrei varstu að kvarta yfir heilsunni eða lést það stoppa þig þó heilsan væri slæm. Þú fórst í nám og varst ákveðinn í að komast í vinnu með tímanum. Mikið á ég eftir að sakna þess að geta ekki lengur hringt eða hitt þig, kæri vinur. Samtölin okkar urðu stundum ansi löng um lífið og tilveruna. Þú varst alltaf til staðar og tilbúinn að hjálpa mér þegar ég var veikur og átti erfitt með að hreyfa mig vegna mæði.

Það var ómetanlegt að geta leitað ráða hjá þér. Þegar það kom til tals að ég færi í lungnaskipti, þá varst þú alltaf tilbúinn að ræða málin og veita góð ráð. Við gerðum okkur grein fyrir því, að lungnaskipti væru ekki lausn á öllum okkar veikindum. Við töluðum oft um að hlutirnir væru bara svona, veikindi væru ekkert sem við réðum við, við yrðum að vinna með það sem við hefðum, ekki það sem við vildum hafa. Það liggur fyrir okkur öllum að kveðja þennan heim einhvern tíma. Ég vona að þar sem þú ert núna getir þú andað að þér súrefni eins og þú gerðir fyrir veikindin þín og að þessari baráttu um að geta andað eðlilega sé lokið. Það er erfitt og sárt að þurfa að berjast fyrir hverjum andardrætti.

Mig langar fyrir hönd Samtaka lungnasjúklinga að votta foreldrum, systkinum og

fjölskyldum þeirra innilega samúð á þessum erfiða tíma.

Birgir Rögnvaldsson,

formaður Samtaka

lungnasjúklinga.