Gestheiður Guðrún Stefánsdóttir fæddist 21. desember 1926. Hún lést 1. ágúst 2014. Útför Gestheiðar Guðrúnar fór fram 9. ágúst 2014.

Elsku amma mín, nú ertu búin að kveðja þennan heim og verður þín sárt saknað. Mínar bestu æskuminningar tengjast þér og afa í Skálholti 11 þar sem ómældur kærleikur, ást og umhyggja ríkti og veitti skjól í hringiðu lífsins. Þú varst iðulega í eldhúsinu að útbúa mat eða baka og alltaf var auðsótt að fá að hjálpa til, kreista smjörlíkið saman við hveiti og egg, skera út og toga í gegn þegar steikja átti kleinur, eða bara að fá að vaska upp. Notalegt var svo að koma inn eftir að hafa verið úti í leikjum björt sumarkvöldin og fá sér kvöldkaffi áður en maður fór í háttinn, lognast svo út af við notalegt spjallið sem ómaði frá eldhúsinu eða stofunni.

Margar kærar eru minningarnar úr æsku, hvort heldur þegar þú signdir mig eftir baðið áður en við gerðum okkur fínar og gengum til kirkju á sunnudögum, eða þegar þú hitaðir kakó um miðja nótt þegar ég vaknaði með svo mikla hálsbólgu að ég gat ekki talað. Rabarbari og glas með sykri til að dýfa í, nesti og box til að fara í berjamó, og ekki má gleyma að apótekaralakkrís rataði oft í litla munna (því amma var jú Heiða í apótekinu þegar hún var að vinna, en Heiða hans Begga þegar hún var í Skálholtinu), eða við fengum einhverjar krónur í vasann fyrir ís eða pulsu, en mikilvægast af öllu var kærleikurinn, umburðarlyndið, hlýjan og hjartað sem ekkert aumt mátti sjá. Allir áttu að vera vinir. Það er ekki hægt annað en að nefna garðinn ykkar afa í Skálholtinu, þvílík prýði sem varð til vegna natni og eljusemi ykkar, og grasið aldrei eins flott og þegar við krakkarnir veltumst þar um í hinum ýmsu leikjum. Þegar við komum í heimsókn vestur hafði það forgang að fá skógfræðinginn til að líta á garðinn og trén til að vega og meta hvað þyrfti að gera.

Það var okkur sönn ánægja og gleði að geta aðstoðað ykkur við garðverkin þegar þið afi voruð farin að verða lúin.

Þá gerðir þú gjarnan pönnukökur með kaffinu sem runnu hraðar niður en þú gast bakað, og við elduðum framandi rétti og bárum á borð fyrir ykkur afa. Við ræddum oft um lífið og tilveruna, tísku, förðun og ferðalög, fórum í margan fataleiðangurinn í Reykjavíkinni til að dressa þig upp þegar fataskápurinn virkaði ekki lengur spennandi. Þú elskaðir söng Mariu Callas, Pavarotti og Domingo, bíómyndir og bækur sem fjölluðu um líf fólks. Þú lagðir áherslu á að fólk ætti að reyna að fá sem mest út úr lífinu og hvattir okkur áfram í því sem við tókum okkur fyrir hendur.

Pólitík og samfélagslegt réttlæti var þér mikið hitamál og léstu þig margt varða, og áttir það líka til að hvessa þig við okkur krakkana ef við gengum of langt – en það stóð ekki lengi.

Ferðalög til annarra landa voru þér hugleikin og París var á óskalistanum, en fyrir þér og afa tók lífið aðra stefnu og ekki svo auðvelt að ferðast lengur. Þegar vitað var í hvað stefndi fannst þér erfiðust tilhugsunin um að geta ekki verið lengur til staðar fyrir afa.

Mín huggun er sú að þetta tók skjótt af og ég veit að þú hefur fengið hlýjar móttökur hinum megin, Svana og Erla þar fremstar í flokki. Guð geymi þig, þín

Rakel.

Við kveðjum Heiðu í dag og þökkum henni fyrir hvað hún og hennar maður, hann Beggi, voru alltaf yndisleg við okkur við bjuggum saman hlið við hlið í Skálholtinu og myndaðist góð vinátta okkar á milli. Það var alltaf gott og gaman að kíkja í kaffi til þeirra hjóna og spjalla um heima og geyma, Heiða var skemmtileg kona og hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum, hjartahlý og yndisleg.

Það er varla hægt að nefna Heiðu nema Beggi sé nefndur, svo samrýnd voru þau, enda vitnaði heimili þeirra um myndarskap og dugnað og gestrisni í hvívetna.

Heiða var afar stolt af garðinum sínum og ljómaði á sólskinsdegi er hún labbaði og sýndi mér fallegu blómin í fullum skrúða og tjáði mér hvað þau hétu, Heiða hefði verið góður náttúrufræðingur sem hafði gaman og yndi að leiða mig með leiðsögn um algengustu blóm og plöntur sem uxu í fallega garðinum hennar. Fannst mér þetta vera mjög notaleg stund með Heiðu og minnist þessarar stundar oft.

Nú eru þau öll fallin frá, fallegu og góðu systkinin frá Uppsölum (Skálholti) í Ólafsvík en minningin geymist og yljar manni um hjartarætur þegar rifjast upp góðu stundirnar með góða fólkinu frá Uppsölum.

Takk, elsku Heiða mín, fyrir samferðina og þær stundir sem við áttum saman, allar góðu minningarnar um þig munu lifa með okkur litlu fjölskyldunni sem bjó á Uppsölum.

Þeir segja mig látna, ég lifi samt

og í ljósinu fæ ég að dafna.

Því ljósi var úthlutað öllum jafnt

og engum bar þar að hafna.

Frá hjarta mínu berst falleg rós,

því lífið ég þurfti að kveðja.

Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,

sem ykkur er ætlað að gleðja.

(Höf. ók.)

Elsku Beggi og fjölskylda, sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Heiðu.

Aðalheiður St. Eiríksdóttir, Örn Alexandersson

og fjölskylda.