Kristján Gunnlaugur Bergjónsson fæddist 3. október 1932. Hann lést 4. júlí 2014. Útför hans fór fram í kyrrþey.

„Jæja gamli!“ „Ég er ekkert svo gamall.“ Svona byrjuðu okkar samtöl svo oft, afi minn, og svo glottum við framan í hvort annað.

Mikið svakalega gastu alltaf verið rólegur. Þegar ég ruddist inn á Dalbrautina í einhverju risa veseni með eitthvað sem þurfti að sauma, stytta eða hvað það nú heitir, og það í einum hvelli, þá varst þú alltaf hinn rólegasti. Þegar ég var búin að leita að henni ömmu í öllum hornum, skúffum og skápum og fann hana hvergi þá heyrðist „Að hverju leitar þú, Eva mín?“ Þá sast þú í rólegheitunum inn í eldhúsi með kaffibollann þinn, glottandi að öllu veseninu í mér. Þegar ég hafði náð andanum og útskýrt af hverju hraðferðin var svona svakaleg þá var svarið þitt alltaf, „Þú hefðir nú getað spurt mig hvar hún væri, ég hefði alveg sagt þér það“. Mikið vildi ég að ég gæti verið svona róleg eins og þú varst alltaf.

Ég man líka eftir svarinu þínu þegar ég sagði þér frá því að ég væri ófrísk að honum Breka. Jæja, afi, hvernig líst þér á að verða langafi?

„Ég lengist nú ekkert við það, held ég“, þú varst alltaf með svörin á tæru. Sérstaklega þegar ég spurði þig hvað hefði komið fyrir þumalinn á þér. Þú sagðist hafa sagað hann af þér því þú hefðir ekkert með hann að gera. Veistu hvað ég trúði þessu lengi?

Mikið er ég þakklát fyrir að hafa kynnst þér og að strákarnir mínir hafi fengið að hafa þig hjá sér svona lengi.

Takk fyrir allt!

Eva Björk Sigurðardóttir.

Elsku Diddi minn, sem ég sakna svo sárt en ég veit að þér líður vel þar sem þú ert.

Mig langar að setja nokkur orð á blað um minn elskulega eiginmann sem var svo lengi veikur í bakinu og varð að ganga á sínum dofnu fótum. Fyrir um fimm árum greindist hann með meinsemd í framheila, sem gerði það að verkum að hann gat ekkert unnið. Þetta var erfitt fyrir hann, manninn sem alltaf var að og kvartaði aldrei. Hann var góður og traustur maður.

Mig langar að þakka öllum þeim sem okkur heimsóttu og sýndu vinarhug.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Það er svo margs að minnast,

svo margt um huga minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Guðbjörg Margrét (Bigga).

HINSTA KVEÐJA
Elsku Langi Diddi.
Við söknum þín svo mikið. Þú varst alltaf svo rosalega góður og vildir allt fyrir okkur gera. Við vitum að þú ert að smíða eitthvað skemmtilegt hjá honum Guði.
Leiddu mína litlu hendi,
ljúfi Jesús, þér ég sendi
bæn frá mínu brjósti, sjáðu,
blíði Jesús, að mér gáðu.
(Ásmundur Eiríksson)

Breki Örn og
Bergjón Paul.