Sæla Það er gott að vera ljósvakalaus í París.
Sæla Það er gott að vera ljósvakalaus í París. — AFP
Ljósvakarýni er vandi á höndum þar sem hann hefur ekki fylgst með ljósvakamiðlum í rúmar tvær vikur. Þannig er mál með vexti að rýnir fór í sumarfrí til Frakklands og hætti algjörlega að horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp.

Ljósvakarýni er vandi á höndum þar sem hann hefur ekki fylgst með ljósvakamiðlum í rúmar tvær vikur. Þannig er mál með vexti að rýnir fór í sumarfrí til Frakklands og hætti algjörlega að horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp. Reyndar var gerð tilraun til þess að horfa á sjónvarp en þar sem allt í frönsku sjónvarpi er talsett á frönsku var það til lítils, rýnir er slakur í frönsku. Skýrir það eflaust ótta Frakka við að tala ensku að þeir fá aldrei að hlusta á hana í sjónvarpi. Hvernig gengi okkur Íslendingum að tala ensku ef við fengjum aldrei að hlusta á hana?

Ljósvakaleysið reyndist hinn mesti léttir og í raun merkilegt hversu auðveldlega maður venst því að horfa ekki á sjónvarp og hlusta ekki á útvarp. Þegar aftur til Íslands var komið var auðvitað kveikt á útvarpinu í bílnum um leið og haldið var frá Leifsstöð. Fékk ljósvakarýnir þá óþægilegu tilfinningu að hann hefði verið að hlusta á sama þáttinn degi fyrr og að hann hefði í raun aldrei farið til Frakklands. Þegar kveikt var á sjónvarpinu var það sama uppi á teningnum. Voru þetta ekki sömu fréttirnar og síðast, sömu þættirnir? Er dagur múrmeldýrsins í dag?

Helgi Snær Sigurðsson