[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Við þurftum þrjú stig og ég þurfti aðeins að sýna aftur að ég kynni eitthvað í fótbolta, svo að þetta var ágætt,“ sagði Almarr Ormarsson, leikmaður KR, í samtali við Morgunblaðið í gær, en hann er leikmaður 15. umferðar Pepsi-deildar karla að mati blaðsins. Almarr skoraði bæði mörk KR í 2:0-sigri á Keflavík á mánudag sem fleytti liðinu upp í þriðja sætið á ný, en þessi lið mætast einnig á laugardaginn kemur í úrslitaleik bikarkeppninnar.

„Það er alltaf skrítið að spila á móti liðinu sem maður mætir svo í bikarúrslitum stuttu seinna. Þessi leikur gaf samt ekki rétta mynd af því sem koma skal á laugardaginn enda bæði lið að passa mennina á gulum spjöldum og spila frekar varfærnislega. Það verður meiri harka í úrslitaleiknum,“ sagði Almarr, sem sagði deildarleikinn þó ekki hafa verið hugsaðan sem upphitun fyrir leikinn á laugardag.

„Við reyndum að gleyma úrslitaleiknum alveg, bara að hugsa um deildina. Við þurftum þrjú stig og þurfum öll stig sem eru í boði ef við eigum að eiga séns að laumast ofar. Við lögðum því hlutina upp eins og fyrir hvern annan deildarleik,“ sagði Almarr, sem segist alls ekki öruggur með sæti í liðinu þrátt fyrir góða frammistöðu og mörkin tvö.

Vanur að spila ýmsar stöður

„Þó að maður standi sig í einum leik gefur það manni ekki fast sæti í liðinu. Rúnar [Kristinsson þjálfari] horfir ekki bara á einn leik þegar hann hugsar um þann næsta heldur stillir upp því liði sem hann heldur að eigi mesta möguleika á sigri. Ég vonast auðvitað til að vera í því liði,“ sagði Almarr, sem var ánægður að fá að spila framarlega á vellinum gegn Keflavík.

„Ég hef oft verið spurður að því hvar mér finnist ég eiga að spila og ég svara því að þessi staða sé skemmtilegust, fyrir aftan framherjann, en ég spila þar sem ég er settur. Ég var vanur því strax þegar ég kom í meistaraflokkinn hjá KA að spila bakvörð, kant og miðju svo að það er ekkert nýtt fyrir mér að spila nokkrar stöður. Mér leið vel þarna en er til í að spila allt, svo lengi sem ég fæ að spila.“

Sem fyrr segir komst KR upp í þriðja sætið á ný með sigrinum, en stefnan var vissulega sett ofar fyrir tímabilið af ríkjandi Íslandsmeisturum, sem er nú sex stigum á eftir toppliðunum tveimur.

„Fyrri hluti sumarsins er klár vonbrigði og staðan núna er alls ekki það sem við stefndum á. En úr því sem komið er verðum við að gera það besta úr því. Það þýðir ekkert annað en að hafa trú á því að komast ofar, við eigum bæði eftir að spila við Stjörnuna og FH og ef við vinnum þau lið og allt annað er allt hægt. Vonandi verður þetta spennandi í lokin.“

Sviðin ekki stærri en hjá KR

Almarr sjálfur er ríkjandi bikarmeistari eftir að hafa hampað þeim stóra sem leikmaður Fram í fyrra. Hann getur því verið í sigurliði annað árið í röð á laugardag en hefur hins vegar líka upplifað það að tapa.

„Það er með því leiðinlegra sem ég hef gert að tapa bikarúrslitaleik en að sama skapi eitt það skemmtilegasta að vinna. Það væri ekki ónýtt að vinna tvö ár í röð,“ sagði Almarr, sem gekk til liðs við KR fyrir sumarið eftir rúmlega fimm ára dvöl í Safamýrinni.

„Mér fannst kominn tími til að prófa eitthvað nýtt, þetta var kannski orðin aðeins of þægileg staða fyrir mig persónulega og mér fannst ég þurfa að sanna mig á aðeins stærra sviði. Þau gerast ekki mikið stærri hér á landi en hjá KR,“ sagði Almarr, sem hefur þurft að leggja hart að sér að brjótast inn í liðið í sumar.

„Þetta er hörkusamkeppni og ég tel mig alveg eiga að geta verið í þessu liði ef ég spila eins og maður. Ég horfi á þetta þannig að ég þurfi að vera þolinmóður og komast hægt og bítandi inn í liðið. Nú veit ég hvað þarf til að sýna sig og stressið er farið sem var í upphafi móts. Það er gott að prófa að vera aftur í því hlutverki að þurfa að vinna sig inn í lið í staðinn fyrir að þurfa að klúðra sætinu til að detta út.“

Ennþá mjög gulur í hjartanu

Almarr er uppalinn hjá KA en Þorvaldur Örlygsson föðurbróðir hans, sem þjálfaði hann á sínum tíma fyrir norðan, fékk hann til Fram á miðju sumri 2008, þegar Almarr var tvítugur. „Í fyrstu ætlaði ég að klára tímabilið með KA, ég er mikill norðanmaður og fékk kannski fyrr tækifæri með meistaraflokki en margir fá hjá liðum í efstu deild. En svo hringdi síminn nokkrum sinnum og ég fór á fund með Todda, sem hefur mikinn sannfæringarkraft. Eftir þennan fund varð ekkert aftur snúið og enn þann dag í dag er hann einn besti þjálfarinn sem ég hef haft,“ sagði Almarr, sem fylgist vel með uppeldisfélagi sínu.

„Ég reyni að kíkja á leiki þegar þeir spila fyrir sunnan og fylgist vel með stöðutöflunni. Ég er ennþá mjög gulur í hjartanu,“ sagði Almarr, sem vonast til að Akureyrarliðin tvö eigi eftir að vera saman í efstu deild á ný eins og sumarið 2002.

„Algjörlega. Draumur minn er að hafa bæði KA og Þór í úrvalsdeild þó að maður upplifi smá ríg gagnvart Þór. Ég man þegar maður fór á völlinn þegar þau voru bæði uppi og það voru skemmtilegustu leikirnir. Það var gaman þegar þau mættust í 1. deild en allt annað í þeirri efstu. Ég vil hafa bæði lið uppi og þá get ég hraunað yfir Þórsara þegar KA er að spila á móti þeim,“ sagði Almarr léttur.

Heillast af útgáfubransanum

Spurður út í framhaldið er Almarr þegar farinn að huga að því hvað hann vill leggja fyrir sig eftir fótboltann og reiknar ekki með að spila erlendis áður en ferlinum lýkur.

„Það yrði þá bara bónus. Eins og er vil ég bara sýna mig í Frostaskjólinu og koma mér almennilega inn í liðið. Ef maður spilar vel fyrir KR er auðvitað alltaf séns en ég er orðinn 26 ára og liðin úti eru ekkert í röðum að leita að svona eldri mönnum,“ sagði Almarr, sem stefnir á að klára meistaranám sitt í vetur.

„Hugmyndin er að fara í bókaútgáfu, ég er að öllum líkindum að fara aftur í skóla í haust að klára meistaranám í ritstjórn og útgáfu. Sá geiri heillar mig, ég hef alltaf verið bókamaður. Ég hugsa að maður endi einhvern tímann í útgáfubransanum,“ sagði Almarr Ormarsson, leikmaður KR.

Almarr Ormarsson
» Er 26 ára gamall og uppalinn hjá KA á Akureyri, þar sem hann spilaði með meistaraflokki frá 17 ára aldri.
» Fór til Fram á miðju sumri 2008 og var þar snemma fastamaður en skipti yfir til KR í vetur.
» Er í meistaranámi í ritstjórn og útgáfu.