Góðir Leikmenn Real Madrid áttu ekki í vandræðum með sigurinn í gær.
Góðir Leikmenn Real Madrid áttu ekki í vandræðum með sigurinn í gær. — AFP
Evrópumeistarar Real Madrid stilltu upp dýrasta byrjunarliði sögunnar þegar liðið vann Sevilla 2:0 í leiknum um Ofurbikarinn, þar sem sigurvegarar Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar í knattspyrnu mætast við upphaf nýrrar leiktíðar.

Evrópumeistarar Real Madrid stilltu upp dýrasta byrjunarliði sögunnar þegar liðið vann Sevilla 2:0 í leiknum um Ofurbikarinn, þar sem sigurvegarar Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar í knattspyrnu mætast við upphaf nýrrar leiktíðar. Madridingar geta reyndar bætt um betur í þessum efnum. Með fáeinum breytingum hefði liðið orðið enn dýrara en þær 364 milljónir punda sem leikmennirnir 11 kostuðu félagið en dýrasta byrjunarlið sem Real gæti teflt fram er skipað leikmönnum sem kostuðu samtals 400 milljónir punda.

Cristiano Ronaldo skoraði bæði mörkin í leiknum. Það fyrra gerði hann eftir magnaða fyrirgjöf frá Gareth Bale sem var á heimavelli því leikurinn fór fram í heimalandi hans, Wales. Seinna markið skoraði Ronaldo með firnaföstu skoti eftir stutta sendingu frá Frakkanum Karim Benzema.

„Toni Kroos var fullkominn“

Kólumbíski markakóngurinn James Rodríguez og Toni Kroos úr heimsmeistaraliði Þýskalands þreyttu báðir frumraun sína fyrir Real í leiknum eftir að hafa slegið í gegn á HM í sumar og verið keyptir til félagsins. Þeir tveir munu eflaust reynast ágætis viðbót við stjörnum hlaðið lið Madridinga.

„Frammistaða Toni Kroos var fullkomin. Hann var fljótur og beinskeyttur í öllu því sem hann gerði,“ sagði Carlo Ancelotti, stjóri Real, eftir leikinn. Ronaldo var alsæll.

„Ég get ekki farið fram á meira. Liðið lék vel og ég náði að skora tvö mörk. Þetta er frábær byrjun á tímabilinu,“ sagði Ronaldo. sindris@mbl.is