Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir
Eftir Vigdísi Hauksdóttur: "Sú kyrrstaða sem ríkt hefur hér undanfarin ár hefur verið rofin á einungis fjórtán mánuðum í valdatíð þessarar ríkisstjórnar."

Stjórnvöld ætla að skila hallalausum fjárlögum fyrir árið 2014. Hlutverk fjárlaganefndar samkvæmt þingskaparlögum er að fjalla um fjármál ríkisins, fjárveitingar, eignir ríkisins, lánsheimildir og ríkisábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs auk þess að annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Til þess að markmið stjórnvalda um hallalaus fjárlög náist þarf nefndin að sinna eftirlitshlutverki sínu af kostgæfni og festu. Um nokkra hríð hefur sex mánaða uppgjör á fjárreiðum ríkissjóðs legið fyrir. Fyrstu tveir ársfjórðungar koma ágætlega út fyrir utan nokkur undantekningatilvik. Fjárlaganefnd er nú að fá til sín ráðuneyti og kalla eftir skýringum á framúrkeyrslu ákveðinna stofnana. Algjör viðsnúningur hefur orðið í rekstri ríkisins frá því að ríkisstjórnin tók við eftir alþingiskosningarnar 2013. Hafa margar gæfuríkar ákvarðanir verið teknar með forgangsröðun almennings í huga. Strax og ríkisstjórnin tók við stjórnartaumunum var boðað mikið aðhald í rekstri ríkisins og markmiðið sett á hallalaus fjárlög 2014 og að skila rekstrarafgangi á árinu 2015. Margir töluðu þessa festu í ríkisfjármálum niður og töldu að verkefnið væri ógerlegt. Það er því afar ánægjulegt að sjá hvílíkan bata er að finna í rekstri ríkisins. Bæði eru skattar að skila sér betur en gert var ráð fyrir í fjárlagavinnunni fyrir líðandi ár og ekki síður eru ákveðnir gjaldstofnar að lækka vegna betri afkomu. Atvinnuleysi er á hraðri niðurleið og flestir hagvísar jákvæðir. Í venjulegu ári væri þetta ávísun á frekari ríkisútgjöld – en svo er ekki nú. Ekki á að hvika frá því aðhaldi sem þegar hefur verið boðað af stjórnvöldum. Þetta krefst vinnu og samráðs við ráðuneytin og undirstofnanir þeirra það sem eftir er ársins og verður sú samvinna örugglega ánægjuleg því markmiðið er skýrt. Sú kyrrstaða sem ríkt hefur hér undanfarin ár hefur verið rofin á einungis fjórtán mánuðum í valdatíð þessarar ríkisstjórnar. Ekki einungis er verið að ná tökum á ríkisfjármálunum heldur hafa stjórnvöld veitt aukalega nú þegar tæpum 10 milljarða til heilbrigðismála, 5 milljarða í almannatryggingarkerfið og komið til móts við skuldug heimili með skuldaniðurfellingarleiðinni auk skattaafsláttar í séreignarlífeyrissjóðskerfinu til íbúðarkaupa og innágreiðslu lána. Horfum bjartsýn til framtíðar, því með aga, skýrri framtíðarsýn og forgangsröðun eru okkur sem þjóð allir vegir færir.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður Framsóknarflokksins.