Íslenskt Kartöflur ræktaðar undir dúkum komu í búðir í byrjun júlí.
Íslenskt Kartöflur ræktaðar undir dúkum komu í búðir í byrjun júlí. — Morgunblaðið/Golli
„Rigningin hefur dregið mikið úr kraftinum í uppskerunni. Áburðarefni hafa skolast burt í rigningunni og maður veit ekki hvernig þetta mun þróast,“ segir Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði í Þykkvabæ.

„Rigningin hefur dregið mikið úr kraftinum í uppskerunni. Áburðarefni hafa skolast burt í rigningunni og maður veit ekki hvernig þetta mun þróast,“ segir Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði í Þykkvabæ.

Mikið hefur rignt í sumar og hefur það gert kartöflubændum á Suðurlandi lífið leitt. „Þetta eiga að vera dagarnir þegar kartöflurnar spretta á fullu. Framhaldið á svo sem allt eftir að koma í ljós en þetta verður aldrei nema bara þokkaleg uppskera í besta falli.“

Sumarið byrjaði vel hjá kartöflubændum, enda var maímánuður hlýr. „Fyrstu kartöflurnar fóru í búðir í byrjun júlí en þær kartöflur voru ræktaðar undir dúk. Sú uppskera var mjög tímanleg og fyrr á ferðinni en oftast áður. Rigningin sem á eftir kom rústaði þessu öllu saman. Óvanalegt er að það rigni svona mikið, en eflaust hefur rignt alveg stanslaust í u.þ.b. 50-60 daga í sumar. Næstu dagar og vikur líta ágætlega út, þannig að vonandi batnar ástandið eitthvað. Uppskeran þarf nefnilega að hefjast eigi síðar en um næstu mánaðamót. Ekki er hægt að fresta því lengur, vegna hættu á aukinni vætu og kulda,“ segir Sigurbjartur.

Bjartsýni fyrir norðan

Bergvin Jóhannsson, kartöflubóndi á Áshóli og formaður Félags kartöflubænda, segir sumarið hafa verið gott fyrir norðan. „Hérna fyrir norðan hefur þetta verið gott sumar. Kartöflur sem eru ekki ræktaðar undir dúkum eru fyrst núna að koma á markað en ég hugsa að ég taki upp kartöflurnar hjá mér um 20. ágúst. Ég býst við þokkalega góðri uppskeru.“ isb@mbl.is