[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ingvar Smári Birgisson isb@mbl.is Norræn djáknaráðstefna verður haldin í Keflavíkurkirkju í Keflavík dagana 13.-15. ágúst. 70 djáknar frá öllum löndum á Norðurlöndunum munu sækja ráðstefnuna sem er haldin af Djáknafélagi Íslands.

Sviðsljós

Ingvar Smári Birgisson

isb@mbl.is

Norræn djáknaráðstefna verður haldin í Keflavíkurkirkju í Keflavík dagana 13.-15. ágúst. 70 djáknar frá öllum löndum á Norðurlöndunum munu sækja ráðstefnuna sem er haldin af Djáknafélagi Íslands.

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, formaður undirbúningsnefndar Djáknaráðstefnunnar og framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags, segir ráðstefnuna gera mikið fyrir íslenskt djáknasamfélag. „Þingið styrkir tengsl okkar við djákna frá öðrum Norðurlandaþjóðum mjög mikið, þá t.d. hvað varðar ráðstefnur og fræðslu, en einnig gerir þetta okkur auðveldara að sækja mót og þing hverjir hjá öðrum. Með slíkri samvinnu er hægt að öðlast meiri víðsýni á möguleika starfsins með því að fá nýjar hugmyndir, þekkingu og reynslu. Það gefur ótrúlega mikið í okkar litla djáknasamfélag á Íslandi að fá svona gesti frá öðrum löndum á Norðurlöndunum til að taka þátt í þessu með okkur.“

Þetta er í annað sinn sem þingið er haldið á Íslandi. „Tíu ár eru liðin síðan Ísland hélt síðast Norræna djáknaráðstefnu í Skálholti, einum helgasta stað Íslendinga sem geymir mikilvæga sögu kristni á Íslandi. Þingið er haldið árlega í einhverju landanna á Norðurlöndum og núna er kominn tími á að við tökum aftur við keflinu,“ segir Ragnhildur.

Tré plantað sem tákni um vöxt

Á opnun ráðstefnunnar mun biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, planta tré í garð Keflavíkurkirkju sem tákni um vöxt kærleiksþjónustunnar, mikilvægi þess að hafa rætur í kirkjunni og aðhlynningu alls lífs. Þá mun sr. Erla Guðmundsdóttir kynna starf Keflavíkurkirkju í kjölfar hrunsins, þar sem hún fjallar um kreppuna, atvinnuleysi og viðbrögð safnaðarins við því ástandi sem skapaðist haustið 2008. Elísabet Berta Bjarnadóttir flytur fyrirlestur um handleiðslu sem mikilvægt tæki til að eflast og þroskast í starfi. Þá mun framkvæmdastjóri Eurodiaconia segja frá því hvernig samtökin geta stutt kærleiksþjónustu norrænna kirkna. Fjórar málstofur verða á þinginu: Vilborg Oddsdóttir mun fjalla um hjálparstarf og baráttu gegn fátækt; Guðjón Ingi Guðjónsson um þjónandi forystu; sr. Ragnheiður Jónsdóttur um kyrrðarbænina; Ásdís P. Blöndal um notkun netsins í starfi meðal aldraðra og sr. Vigfús Bjarni Albertsson fjallar um yfirskrift ráðstefnunnar, sem er „Vatn og jörð, ís og eldur. Varðveitum tengslin – styrkjum þau.“

Hvað er djákni?

Djáknar eru fulltrúar kærleiksþjónustu kirkjunnar og eru samstarfsmenn presta og gegna ákveðnum og afmörkuðum skyldum sem varða t.d. umönnun, líknarmál og fræðslu. Það getur falið í sér að fara í húsvitjanir á heimili, æskulýðs- eða öldunarstarf. Eitt stærsta hlutverk djákna er sálgæslan, en hún felur í sér að hugga, styrkja, leiðbeina og sætta fólk. Að vissu leyti brúa djáknar bilið milli prests og sóknar. Djáknanám er þriggja ára nám og felur í sér BA-gráðu í guðfræði. Jafnframt er hægt að taka námið sem viðbót við annað framhaldsnám, þá einkum á sviði félagsráðgafar, uppeldis- og hjúkrunarfræði.