Þórður Valdimarsson var fæddur að Hermundarstöðum í Þverárhlíð 22. ágúst 1925. Hann lést að Brákarhlíð, dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi, 2. ágúst 2014.

Foreldrar hans voru hjónin Valdimar Davíðsson, fæddur 1899, dáinn 1974, og Helga Ingibjörg Halldórsdóttir, fædd 1895, dáin 1985. Þau eignuðust þessi sex börn auk Þórðar: Guðný Ástrún, f. 1920, d. 2011, Guðrún, f. 1924, Valdís, f. 1925, d. 1995, Halldór, f. 1928, d. 1995, Þorsteinn, f. 1929, d. 2001, og Guðbjörg, f. 1934, d. 2004. Þau Helga og Valdimar hófu búskap á Hermundarstöðum en fluttu 1926 að Guðnabakka í Stafholtstungum þar sem þau bjuggu til ársins 1952 er þau fluttu að Hömrum í Hraunhreppi í Mýrasýslu. Þar bjó með þeim frá upphafi til loka 1966 elsti sonur þeirra, Þórður. Þá fluttu þau í Borgarnes og nokkrum árum eftir að þau fluttu þangað keypti Þórður húsið að Borgarbraut 65. Þar bjó Þórður svo einn í nærri þrjá áratugi eða allt til þess er hann flutti á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi sem nú heitir Brákarhlíð. Það var 2007.

Þórður var hestamaður af lífi og sál; var virkur í hestamannafélaginu Faxa og var heiðursfélagi þess. Hann var vel lesinn í fornbókmenntum og fylgdist glöggt með amstri daganna þegar heilsa og aðstæður leyfðu. Hann aðstoðaði vini sína við hross og hélt hesta lengi í Borgarnesi.

Þórður var ókvæntur og barnlaus.

Útför Þórðar verður gerð frá Borgarneskirkju í dag, 13. ágúst 2014, og hefst athöfnin klukkan 14.

Þegar Þórður móðurbróðir minn var allur fannst í fórum hans úrklippa nostursamlega samanbrotin í peningaveski. Á úrklippunni reyndist vera ljóð Gríms Thomsen um Arnljót gellini. Arnljótur var stigamaður sem fór ekki troðnar slóðir. Þórður fór ekki troðnar slóðir.

Eftir honum úlfar þjóta

ilbleikir með strengdan kvið.

Gríðar stóðið gráa og fljóta

greitt má taka og hart til fóta

ef að hafa á það við.

Ekki besta ljóð Gríms en þannig orti hann um Arnljót. Fannst Þórði kannski þessar vísur eiga við sig, fannst honum hann stundum vera aleinn á harðahlaupum undan aðstæðum sem hann réð ekki við?

Viðmót Þórðar frænda míns var oft varnarhamur hans gagnvart umhverfinu. Hann gat verið meinlegur í orðum og hryssingslegur nokkuð og jafnvel viðskotaillur.

En stundum brá hann fyrir sig skelmislegu yfirbragði. Oft var flókið að ræða við hann því hann talaði gjarnan í hálfkveðnum vísum. Það kom fyrir að fólki brá við orð hans. En það voru orð, bara orð.

Lengi hafa ummæli hans við gesti og gangandi verið umræðuefni okkar skyldfólks hans: Hvað átti hann eiginlega við? Við vissum að Þórður átti hlýju og gleði. Það vissum við sem höfðum þekkt hann lengi.

Hann breyttist, harðnaði í áranna rás, en mildaðist svo aftur í lokin. Þórður talaði alltaf vel um árin sín á Guðnabakka. En eftir það var sálnafarið stundum erfitt. Einhverjir áttu það til að espa upp lund hans; það er kallað einelti nú orðið. Hann varð oft illa reiður og Bakkus var þá enginn vinur hans.

Nokkur ár var ég unglingur um jól í Hömrum og um páska; þá var það sérstakt tilhlökkunarefni að tala við Þórð og að fara með honum í fjárhúsin og að tala um hross. Það gerðum við nærri alltaf þegar fundum okkar bar saman.

Þegar ég var barn átti hann hestinn Sörla. Í minningunni er falleg mynd af Þórði á þessum hesti. Þórður starfaði í Hestamannafélaginu Faxa og var heiðursfélagi þess.

Hann sinnti gjarnan hestum með vinum sínum eins og Guðrúnu Fjeldsted og Markúsi Benjamínssyni. Þeim erum við þakklát, en ég hygg að samband hans við Markús hafi leyst hann úr sjálfheldu þegar ekki mátti tæpara standa.

En við töluðum líka um hetjur í Íslendingasögum. Þau ólu mig upp sjö systkinin á Guðnabakka fyrstu árin mín; nú er móðir mín ein á lífi, níræð að aldri. Ég er þeim öllum þakklátur fyrir uppeldið; þau skildu eftir spor í mér sem mér þykir vænt um.

Þórður var í sjö ár í Brákarhlíð í Borgarnesi. Voru það bestu ár ævi hans?

Svo mikið er víst að starfsfólki þótti vænt um hann og honum um það þótt hann kynni ekki að færa það almennilega í orð.

Hann átti það reyndar til að skemmta umhverfi sínu með tvíræðni, jafnvel glettni. Við sem vorum nærri Þórði erum þakklát starfsfólki Brákarhlíðar.

Ég hitti Þórð síðast 14. júní. Þá áttum við skemmtilegra samtal en ég hafði lengi átt við hann. Það skemmdi ekki að þar var Jóhanna frænka okkar; hann kíkti til hennar og leit svo til mín spóalegur. Það var gaman. Það er gott að muna á kveðjustund.

Svavar Gestsson.

Okkur félögunum í hestamannafélaginu Faxa í Borgarfirði langar að til að minnast heiðursfélaga okkar Þórðar Valdimarssonar. Þórður var einn af dyggustu félagsmönnum okkar, ávallt reiðubúinn að vinna sjálfboðavinnu fyrir félagið. Hér á árum áður stóð hestamannfélagið fyrir stórmótum að Faxaborg á bökkum Hvítár, þá voru oft mörg handtök sem þurfti í undirbúningsvinnu. Girðingavinna var stór hluti af þeirri vinnu því margt manna kom ríðandi og þurfti þá að hafa góðar girðingar fyrir keppnis- og ferðahross.

Alltaf var hægt að treysta á Þórð til þessa verks og eyddi hann yfirleitt sínum frístundum í sjálfboðavinnu fyrir félagið sem var honum mjög hugleikið. Þórður átti alltaf góða reiðhesta, yfirleitt þrjá brúna sem hann kallaði brúna tríóið. Áður fyrr stóð hestamannafélagið alltaf fyrir einni hestaferð á hverju sumri og mætti Þórður alltaf í þær ferðir. Man ég sérstaklega eftir einni ferð norður í Skagafjörð með fjölda félaga, hversu hjálpsamur hann var að járna fyrir fólkið og gerði það með stakri prýði.

Eins fórum við ferð í kringum Strútinn, niður Kjarardal og niður í Þverárrétt. Á þessum slóðum var Þórður á sínum æskustöðvum, þarna hafði hann farið í leitir og hrossasmalanir á sínum yngri árum. Þarna fræddi hann okkur um öll helstu kennileiti og fór með vísur og ljóð um marga þá staði sem við fórum um, hann var ljóðunnandi mikill og minnugur og fór vel með. Ógleymanlegt er fyrir okkur sem vorum í þessari ferð þegar við fylgdum Þórði í náttstað til Ásmundar vinar hans á Högnastöðum.

Þá voru rifjaðar upp allar þær góðu minningar sem þeir áttu sameiginlegar um uppbyggingu mannvirkjanna á Faxaborg og ógleymanlegar hestaferðir. Óeigingjarnt starf Þórðar varð okkur til fyrirmyndar því aldrei sóttist hann eftir metorðum. Að vera góður félagi var honum allt og verðum við honum ævinlega þakklát. Blessuð sé minning góðs félaga.

Fyrir hönd hestamannafélagsins Faxa,

Guðrún Fjeldsted.