Finnur Eyjólfsson fæddist í Reykjavík 6. september 1930. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Droplaugastöðum 6. ágúst 2014.

Foreldrar Finns voru Jósefína Jósefsdóttir frá Steinum í Leiru, f. 21. september 1890, d. 28. mars 1983 og Eyjólfur Ágúst Finnsson frá Ólafsvík, f. 1. ágúst 1901, d. 4. maí 1985. Systkini Finns: Ósk Sigurrós Sigurðardóttir, f. 2. febrúar 1920, d. 7. ágúst 1978, Ágúst Ísfeld Sigurðsson, f. 2. ágúst 1924, d. 10. júlí 2013, Jón Eyjólfsson, f. 12. febrúar 1932, Svanhildur Eyjólfsdóttir, f. 4. janúar 1934, Lilja Eyjólfsdóttir, f. 4. janúar 1934, d. 6. maí 2013 og Sigurgísli, f. 9. júlí 1935.

Finnur giftist Bryndísi Á. Sigurðardóttur, f. 28. október 1929, 5. desember 1959. Bryndís er dóttir hjónanna Ágústu Hildibrandsdóttur, f. 24. ágúst 1894, d. 19. október 1975, og Sigurðar Árnasonar, f. 16. nóvember, d. 3. febrúar 1979, í Reykjavík.

Börn Finns og Bryndísar eru: Áslaug Finnsdóttir, f. 24. september 1960, sonur Finnur Matthew Johnsson, f. 12. desember 1994; Sigrún Finnsdóttir, f. 22. janúar 1962, maki Haukur Harðarson, f .26. september 1960, dóttir Elín K. Linnet, f. 10. mars 1982, maki Hafsteinn Steinsson, f. 4. apríl 1975, börn þeirra Kári Hafsteinsson, f. 30. júní 2008 og Tinna Hafsteinsdóttir, f. 11. júlí 2010; Eyjólfur Ágúst Finnsson, f. 5. mars 1966.

Finnur var kjötiðnaðarmaður að mennt og starfaði lengi við Reykhúsið á Grettisgötu og í Skipholti. Hann var síðan síðustu áratugina starfsmaður Flugmálastjórnar í Reykjavík. Finnur var virkur félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík á yngri árum.

Útför Finns fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 13. ágúst 2014, og hefst athöfnin kl. 15

Öllum börnum finnst pabbi sinn besti pabbi í heimi og svo á einnig við um mig.

Nú er pabbi fallinn frá eftir að hafa barist til margra ára við erfiðan sjúkdóm sem hamlaði honum svo lengi, en nú er hann frjáls.

Við mamma og systkini mín vorum hjá honum síðustu stundir hans hér á jörð og fyrir þær stundir erum við mjög þakklát.

Pabbi var mín fyrirmynd, kennarinn minn, hetjan mín.

Það virtist ekki vera neitt sem pabbi gat ekki gert, jafnvígur á flesta hluti og var tilbúinn að taka sér flest fyrir hendur og gerði vel það sem hann gerði.

Daginn fyrir andlát sitt náði hann að halda uppá 58 ára klifurafmæli sitt og tveggja vina sinna þegar þeir klifu Hraundranga í Öxnadal og var það eitt af því síðasta sem ég náði að ræða um við hann.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til baka en það sem stendur uppúr er minningin um sterkan, ákveðinn og mjög þrjóskan mann sem gat og gerði flesta hluti án mikillar fyrirhafnar,

mann sem sá vel um fjölskylduna sína, dáði barna- og barnabörnin sín

Hann var náttúrubarn, mikill útivistarmaður og elskaði að sýsla í garðinum sínum, enda með græna fingur. Við systkinin erum öll með einhvern hluta af honum í okkur því grænu fingurna hefur bróðir minn, útivistina hefur systir mín og þó ég segi sjálf frá þá fékk ég þrjóskuna en það er ég mjög sátt við.

Ég kveð þig, minn kæri faðir, með ljóði Kristjáns Hreinssonar, Minning, og þakka þér allt og allt.

Þegar einhver fellur frá

fyllist hjartað tómi

en margur síðan mikið á

í minninganna hljómi.

Á meðan hjörtun mild og góð

minning örmum vefur

þá fær að hljóma lífsins ljóð

og lag sem tilgang hefur.

Ef minning geymir ást og yl

hún yfir sorgum gnæfir

því alltaf verða tónar til

sem tíminn ekki svæfir.

(Kristján Hreinsson)

Áslaug.

Ég kynntist Finni þegar ég og Sigrún dóttir hans tókum saman á síðustu öld. Við vorum ekki búin að vera lengi saman þegar Sigrún varð ólétt og flutti ég þá til Sigrúnar og foreldra hennar í kjallaraíbúð í Fellsmúlanum. Það var tekið vel á móti mér og reyndust þau hjónin Finnur og Bryndís mér afar vel. Þegar þarna var komið sögu var Finnur byrjaður að byggja einbýlishús í Eyktarásnum og var hann þar löngum stundum við byggingarstörf. Húsið rauk upp og fyrr en varði vorum við flutt í Eyktarásinn númer 15. Þetta var stórt og mikið einbýlishús, vel byggt og gott fyrir okkur unga parið með litla dóttur að búa þar í góðu atlæti Finns og Bryndísar.

Finnur var hæglátur maður sem barst ekki mikið á en lét þó heyra í sér ef á þurfti að halda. Hann var afskaplega barngóður og einstaklega natinn við börn. Það var því mjög gott að ala upp dóttur okkar Sigrúnar, Ellu, undir hans verndarvæng.

Finnur er einn af þessum mönnum sem gátu nánast allt. Hann byggði heilt einbýlishús, svo gerði hann glæsilega lóð umhverfis húsið með fallegum steinhleðslum og yndislegum gróðri og ef eitthvað bilaði gerði hann við. Ein minning frá þessum árum er mér ofarlega í huga. Þá bjuggum við í Eyktarási. Eitt sinn bilaði þvottavél heimilisins. Stuttu síðar á ég leið inn í bílskúrinn og blasti þar við mér á miðju gólfinu þvottavélin, komin í frumparta og öllu raðað snyrtilega og skipulega upp. Ekki löngu seinna var hægt að þvo þvott aftur.

Mig langar að lokum til að þakka Finni fyrir að hafa fengið að kynnast honum og fyrir það góða atlæti sem hann sýndi mér þann tíma sem ég bjó í Fellsmúlanum og Eyktarásnum og óska honum velfarnaðar í sumarlandinu. Bryndísi og börnunum votta ég mína dýpstu samúð.

Kristján Karl Linnet.

Sumum mönnum er það eðlislægt að láta öðrum líða vel með nærveru sinni. Þannig maður var hann Finnur vinur minn.

Við kynntumst sem ungir menn í gegnum skíðaíþróttina. Vorum síðan m.a. í Jöklarannsóknarfélaginu, Alpaklúbbnum og Flugbjörgunarsveitinni. Við hittumst mánaðarlega í áratugi ásamt mökum og fórum í ótalmörg ferðalög saman.

Eftirminnilegast er þó er við, þann 5. ágúst 1956, ásamt Bandaríkjamanninum Nicolas Clinch, klifum fyrstir allra Hraundranga í Öxnadal.

Nú hefur vinur minn klifið sinn hinsta topp og vil ég þakka honum fyrir einstaka vináttu og góðvild alla tíð. Sendi mínar innilegustu samúðarkveðju til Bryndísar, barnanna og annarra ættingja.

Sigurður S. Waage.