Alþjóðavæðing Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Ráðið telur mikilvægt að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga hérlendis.
Alþjóðavæðing Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Ráðið telur mikilvægt að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga hérlendis. — Morgunblaðið/Eggert
Ísland er eina ríkið á Norðurlöndum sem hefur ekki innleitt lög sem ætlað er að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga. Skattaumgjörð þeirra er óhagstæðari hér á landi en víða annars staðar og afgreiðsla dvalar- og atvinnuleyfa tekur jafnframt lengri tíma.

Ísland er eina ríkið á Norðurlöndum sem hefur ekki innleitt lög sem ætlað er að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga. Skattaumgjörð þeirra er óhagstæðari hér á landi en víða annars staðar og afgreiðsla dvalar- og atvinnuleyfa tekur jafnframt lengri tíma.

Engir hvatar eru fyrir erlenda sérfræðinga til að vinna fyrir íslensk fyrirtæki sem þarfnast starfskrafta þeirra.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs Íslands.

Viðskiptaráð leggur áherslu á að samræma skattalega hvata við grannríkin til þess að standast betur samkeppni um sérhæft erlent vinnuafl. „Á öðrum Norðurlöndum njóti erlendir sérfræðingar hagstæðari skattakjara en innlendir aðilar en hér á landi séu engir skattalegir hvatar til staðar fyrir erlenda sérfræðinga,“ er bent á í umfjöllun Viðskiptaráðs.

Ísland stendur höllum fæti

Í skoðuninni segir enn fremur að með aukinni alþjóðavæðingu sækist fyrirtæki í auknum mæli eftir að ráða erlenda sérfræðinga. Ísland standi höllum fæti í samkeppni um sérhæft starfsfólk, meðal annars vegna gjaldeyrishafta og takmarkaðs framboðs alþjóðlegra skóla.

Viðskiptaráð telur nauðsynlegt að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga hér á landi til að alþjóðleg atvinnustarfsemi geti vaxið hér.

„Aukið innflæði slíkra starfskrafta myndi styðja við uppbyggingu alþjóðlegra fyrirtækja hérlendis, fjölga störfum í þekkingartengdum greinum og auka útflutningstekjur þjóðarbúsins.

Hægt er að bæta úr þessum málum strax í dag. Skattaumgjörð í samræmi við önnur Norðurlönd, skjótari afgreiðsla atvinnu- og dvalarleyfa, aukið framboð á alþjóðlegri menntun og lögbundin undanþága frá gjaldeyrishöftum eru hlutir sem skipta þar sköpum. Slíkar umbætur myndu styrkja stoðir alþjóðlegrar starfsemi fyrirtækja hérlendis og leiða þannig til bættra lífskjara,“ segir í skoðuninni. kij@mbl.is