Jón Valgeir Gíslason fæddist 27. janúar 1959. Hann lést 25. júlí 2014. Útför Jóns Valgeirs var gerð 12. ágúst 2014.

Kær bróðir minn er fallinn frá eftir stutt og erfið veikindi. Við ólumst upp ásamt systkinum í Borgarnesi. Áttum við góða æsku ásamt yndislegum foreldrum. Ég fór að heiman sextán ára til sjós. Þar af leiðir að samskipti urðu minni. Þó hittumst við oft ef mér varð það á að vera heima. Við höfðum þó ólíkar skoðanir á ýmsum málum. Virtum við þó skoðanir hvor annars oftast. Þú hugsaðir vel um þína nánustu sem var aðdáunarvert. Kæri bróðir, nú hefur þú hitt mömmu og pabba ásamt öðrum ástvinum. Kæri bróðir, farðu í friði.

Kæra Berglind, Gunnar, Birna, Björn og Brynja og aðrir ástvinir, megi almættið halda verndarhendi yfir ykkur.

Sigurður Sveinsson.

Mér varð verulega mikið brugðið er ég fregnaði það að hjartkær jafnaldri minn og skólabróðir, Jón Valgeir Gíslason, væri látinn aðeins 55 ára að aldri eftir stutt en alvarleg veikindi.

Jónki, eins og hann var jafnan kallaður af okkur skólasystkinum hans, var einhver fágaðist og besti drengur sem hægt var að hugsa sér jafnt til orðs og æðis. Eins og gerist fara hugsanir um löngu liðna daga í gegnum huga manns og upp í hugann kemur okkar fyrsti skóladagur í Grunnskóla Borgarness. Á móti okkur tók Hildur Þorsteinsdóttir kennari og bauð okkur velkomin í skólann, ég held að eins hafi verið með öll önnur skólasystkin okkar, mikil eftirvænting og spenna lá í loftinu.

Ég man vel eftir því að við vorum þarna saman komin með mæðrum okkar því það tíðkaðist ekki í þá daga að feður væru að ómaka sig við slíka hluti eins og að fylgja börnum sínum til skóla í fyrsta sinn eins og þykir sjálfsagður hlutur í dag

Þarna sá ég í fyrsta sinni að ég held Jón Valgeir með móður sinni þessi strákur var grannur örlítið feiminn, fámáll og hlédrægur og var ekkert að trana sér fram en þegar frá leið var þarna kominn einhver yndislegasti og besti félagi sem hægt var að hugsa sér.

Þó að bærinn okkar Borgarnes væri ekki stór í þá daga var ekki svo mikill samgangur milli hverfa og þennan fyrsta skóladag sá ég fyrst og kynntist mörgum af þeim einstaklingum sem mér þykir hvað vænst um í lífinu og í þeim góða hópi ert þú Jónki inn.

Barna- og unglingsárin liðu hratt og við fórum hvert í sína áttina til frekari náms og starfa, fjölskyldur eru stofnaðar og allt í einu erum við orðin foreldrar og farin til þess að fylgja okkar afkvæmum til síns fyrsta skóladags líkt og var með okkur.

Árgangur 1959 í Borgarnesi er sérstakur af því leyti að ástúð og umhyggja okkar gagnvart hvort öðru er einstök sem sést best á því að við höfum alltaf hist á fimm ára fresti frá því við vorum fermd 1973 og alltaf er spurt frétta af öðrum. Áttum við síðast saman samverustund fyrir ári síðan í Ensku-húsunum við Langá á Mýrum og alltaf er jafn gaman að hittast og gleðjast saman við minningar okkar frá liðnum árum, en nú er skarð fyrir skyldi þig vantar í hópinn kæri vinur, ekki hvarflaði það að nokkrum manni þá að þú sem varst alltaf svo hress og og kátur og hugsaðir um heilsuna skyldir verða sá fyrsti af okkar árgangi til þess að kveðja þetta jarðlíf.

Jónki var frá okkar fyrstu kynnum með alla hluti í röð og reglu einstakt snyrtimenni og stundaði nám sitt af festu og ábyrgð, „betra að eins hefði verið svo komið með aðra“. Því kom það mér ekki á óvart að hann skildi leggja fyrir sig sem lífsstarf endurskoðun og skylda hluti þar var hann svo sannarlega réttur maður á réttum stað.

Ef maður á að trúa því sem boðað er að allir eigi sinn stað hjá guði þá er ekki til einskis lifað og mikil er og verður eftirvæntingin að hitta þar fyrir alla þá sem manni voru hvað kærastir í jarðlífinu og þú verður þar í hópnum minn kæri vinur.

Ég vil að endingu votta fjölskyldu Jóns Valgeirs mína dýpstu samúð og megi minning um einstakan og góðan dreng lifa í hjörtum okkar hinna sem eftir lifum.

Bjarni Kristinn

Þorsteinsson

Borgarnesi.

Elsku vinur, Jón Valgeir.

Hrifinn á brott í einu vetfangi alltof snemma. Enn á ný eru vegir almættisins óskiljanlegir.

Hvílík gæfa það var fyrir mig er við kynntumst fyrir rúmum 29 árum þegar við fórum að vinna á sömu hæð, þó ekki hjá sama vinnuveitanda. Strax þá urðum við miklir vinir og áttum mörg góð samtöl er ég bý að enn í dag. Síðustu sjö árin hafa vinaböndin styrkst enn frekar og samtölin orðin enn fleiri og enn betri.

Takk fyrir alla kaffisopana og rabbið sem við höfum átt saman. Takk fyrir að hafa alltaf tíma þegar droppað var inn í kaffi. Takk fyrir allan þann góða mat sem þú eldaðir og bauðst upp á. Takk fyrir allar þær góðu kveðjur sem ég hef fengið frá þér síðustu 29 ár. Takk fyrir að vera vinur minn. Takk fyrir að vera þú.

Fjölskyldu þinni sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Þar til við hittumst á ný.

Þín vinkona að eilífu.

Magnea.