Jón Gerald Sullenberger Eigandi Kosts er ósáttur við vinnubrögð MAST.
Jón Gerald Sullenberger Eigandi Kosts er ósáttur við vinnubrögð MAST. — Morgunblaðið/Golli
Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is Matvöruversluninni Kosti var nýverið gert að endursenda 2.740 kg af nagbeinum fyrir hunda til Mexíkó vegna þess að Matvælastofnun taldi þau ekki nægilega vel merkt.

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

Matvöruversluninni Kosti var nýverið gert að endursenda 2.740 kg af nagbeinum fyrir hunda til Mexíkó vegna þess að Matvælastofnun taldi þau ekki nægilega vel merkt. Á umbúðum vörunnar kom fram innihaldslýsing og upplýsingar um framleiðandann auk heimilisfangs hans og símanúmers. MAST sagði ákveðið samþykkisnúmer vanta, en þar koma fram upplýsingar um starfsstöðina, að hún hafi leyfi til sölu innan Evrópu og sé unnin undir lögum og reglum Evrópusambandsins.

Jón Gerald Sullenberger, eigandi Kosts, hefur gagnrýnt málið harðlega þar sem hann hafi haft samband við MAST og leitað leiðbeininga áður en beinin voru send til landsins, en þurft að endursenda þau með ærnum tilkostnaði, sem hlaupi á hundruðum þúsunda.

„MAST hefur ákveðna leiðbeiningaskyldu gagnvart fyrirtækjum, sem við nýttum, en því miður brást stofnunin okkur illilega í þessu máli,“ segir Jón Gerald. „Við leituðum til hennar því að við vorum að flytja svona vöru inn í fyrsta skipti. Þetta tók margra mánaða vinnu og við lögðum okkur 100% fram til þess að gera allt rétt og fara að lögum,“ bætir hann við. „Það er alvarlegt að opinberar stofnanir geti ekki sinnt leiðbeiningaskyldu og láti þá sem til þeirra leita standa uppi með verulegt fjárhagstjón og skerta ímynd.“

Nú þegar seld í Evrópu

Jón segir niðurstöðu MAST ekki eiga sér stoð í lögum, enda sé þessi tiltekna vara nú þegar á Evrópumarkaði. „Þessar vörur eru seldar í Hollandi og Belgíu og það virðist ekki vera neitt mál. Það eru nákvæmlega sömu vörurnar og þær eru nákvæmlega eins merktar.“

Í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið á laugardag bendir hann á að ýmsar gerðir nagbeina séu fáanlegar í verslunum hér á landi, sem séu lítið og jafnvel ekkert merktar.

Verslunin Gæludýr.is er meðal verslana þar sem nagbein eru seld í stykkjatali án allra merkinga. Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, fjármála- og markaðsstjóri verslunarinnar, segir merkingarnar tiltækar þrátt fyrir að beinin séu seld í stykkjatali. „Þetta kemur alltaf í algjörlega merktum pokum með öllum tilskildum leyfum, yfirlýsingum, samþykktarnúmeri fóðurfyrirtækisins og svo framvegis. Þetta er selt í lausu en við eigum merkingarnar alltaf til staðar og öll gögn sem sýna fram á að þetta sé algjörlega eftir öllum reglum,“ segir hún.

Ætlar ekki að kæra

Þorvaldur H. Þórðarson, framkvæmdastjóri inn- og útflutningsmála hjá Matvælastofnun, sagði í samtali við Morgunblaðið að vörur væru endursendar af ýmsum ástæðum, til dæmis gæðamálum. Jón Gerald segist ósáttur við þetta. „Kostur flytur eingöngu inn fyrsta flokks hágæðavörur og í þessu tilfelli hafði þetta ekkert að gera með gæði vörunnar,“ segir hann.

Þorvaldur benti einnig á að aðilar sem hefðu verið í sambandi við MAST ættu rétt á að kæra málið til viðkomandi ráðuneytis. Jón hyggst ekki gera það. „Það myndi ekki skipta neinu máli á hvorn veginn það færi. Íslenski neytandinn, skattgreiðandinn, situr alltaf uppi með kostnaðinn, hvort sem það er fyrir hönd MAST eða neytenda sem versla hjá Kosti. Er það þannig sem við viljum hafa það?“ segir hann.

Sjá til að lögum sé fylgt

Morgunblaðið hafði samband við fjölda heildverslana til að kanna hvort algengt væri að þurfa að endursenda vörur. Almennt könnuðust kaupmenn ekki mikið við það. Að sögn forsvarsmanna heildverslunarinnar Dýraheima hafa sendingar frá útlöndum þó stöku sinnum dregist vegna pappírsvinnu.

Guðrún Björk Geirsdóttir er innkaupastjóri hjá Kaupási og segir hún eftirlit MAST gott, en strangt enda gert fyrir neytendur. Hún segir Kaupás stundum hafa þurft að endursenda vörur. „Til dæmis flokkast hunang sem dýraafurð og þá þarf sérstök vottorð. Ég man eftir dæmi þar sem ég gat ekki útvegað þessi vottorð og þá þurfti einfaldlega að farga vörunni,“ segir hún, og bætir við að ódýrara hafi verið að farga henni en endursenda.