Þóra Steingrímsdóttir fæddist 13. mars 1924. Hún lést 26. júlí 2014. Útför hennar fór fram frá Fossvogskirkju 1. ágúst 2014.

Í bókinni um Bjarna Benediktsson, sem Ólafur Egilsson tók saman, segir Birgir Ísl. Gunnarsson frá borgarstjóratíð Bjarna, m.a. að hann hafi verið sérstaklega stundvís og kröfuharður um það sama hjá embættismönnun borgarinnar. Dag einn kl. 9.15, þegar Steingrímur Jónsson kom inn á, sat borgarstjórinn í stól hans og sagði með nokkurri þykkju, „Hér er byrjað kl. 9.“ Ekki vissi hann að Steingrímur hóf störf hvern morgunn kl 8 með eftirlitsferð um vinnustaði Rafveitunnar.

Steingrímur var brautryðjandi í rafmagnsmálum borgarinnar og ekki eru margir sem hafa fengið heilt raforkuver skírt í höfuð á sér. Þessi samviskusemi gekk í arf til barna Steingríms og Láru Árnadóttur konu hans, en þau voru fimm. Þóra Steingrímsdóttir lýsti systrum sínum svo að sú yngsta, Arndís væri músíkölskust, Gúgú (Guðrún), sem giftist Klemens Tryggvasyni, greindust, Sigga, sem giftist Othar Ellingsen, sætust, en sjálf væri hún skemmtilegust. Ekkert af þessu var ofsagt.

Það var sérstakt um margt annað í fari Þóru. Þegar jafnaldrar hennar og nágrannar í skrauthýsunum við Laufásveg völdu langskólagöngu og nám í Menntaskólanum, kaus Þóra hinn skemmri menntaveg í Verslunarskólanum. Þar hóf hún nám haustið 1939. Hún átti létt með nám og jafnvíg á flestar greinar, tók þátt í félagslífi og þeim skemmtunum, sem í boði voru, en þær voru ekki margar utan við nokkrar dansæfingar á vetri, í þeirri íþrótt var hún frábær.

Af þeim 51 sem útskrifuðust úr Verslunarskólanum vorið 1943 eru nú fjórar ofar jörðu.

Blessuð sé minning Þóru Steingrímsdóttur.

Valgarð Briem.