Tromsö Hjörvar Steinn og Hannes Hlífar stóðu sig vel á ÓL í skák í gær.
Tromsö Hjörvar Steinn og Hannes Hlífar stóðu sig vel á ÓL í skák í gær. — Ljósmynd/Gunnar Björnsson
Íslenska liðið í opnum flokki heldur áfram að gera vel á Ólympíuskákmótinu í Tromsö í Noregi.

Íslenska liðið í opnum flokki heldur áfram að gera vel á Ólympíuskákmótinu í Tromsö í Noregi.

Í gær náðist 2-2 jafntefli gegn Tyrkjum, sem Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins segir að sé mjög góður árangur miðað við að tyrknesku skákmennirnir hafi verið stigahærri á öllum borðum.

Hannes Hlífar Stefánsson vann mjög góðan sigur á fyrsta borði og Hjörvar Steinn Grétarsson og Þröstur Þórhallsson gerðu jafntefli með svörtu. Hjörvar var afar nærri því að vinna en Guðmundur Kjartansson tapaði sinni skák.

Íslenska liðið hefur nú endurheimt efsta sætið í Norðurlandamótinu þar sem Norðumenn þurftu að sætta sig við slæmt tap, 0,5-3,5, gegn Króötum þar sem Magnus Carlsen tapaði. Íslenska liðið hefur 13 stig af 20 mögulegum.

Stelpurnar töpuðu 1,5-2,5 fyrir El Salvador. Lenka Ptacnikova vann, Hallgerður Þorsteinsdóttir gerði jafntelfi en Tinna Kristín Finnbogadóttir og Elsa María Kristínardóttir töpuðu. Íslenska kvennaliðið hefur 10 stig.

Kínverjar eru efstir fyrir lokaumferðina eftir sigur á Frökkum. Í kvennaflokknum unnu Úkraínukonur afar mikilvægum sigur á Rússum sem eru engu að síður efstir fyrir lokaumferðina.

Frídagur er í dag, miðvikudag. Lokaumferðin fer fram á morgun og þá ráðast úrslit mótsins.