Formaður VG spyr hvers vegna Íslendingum sé ekki bannað að flytja matvæli til Rússlands

Leiðtogar Evrópusambandsins misstu atburðarásina í Úkraínu úr böndum. Þeir vildu gjarnan losna við Viktor Janúkóvitsj forseta, eftir að hann tók að draga lappirnar í viðræðum um samstarfssáttmála Úkraínu og ESB. Janúkóvitsj þótti hallur undir Rússland og nánara samstarf við það. Hann var óneitanlega réttkjörinn forseti landsins, en vafalítið þótti þó að meirihluti landsmanna hans væri andsnúinn honum í þessu máli, þótt skoðanir væru vissulega skiptar, eftir því hvort horft er til austur- eða vesturhluta landsins.

Kynt var undir andóf í landinu og evrópskir forystumenn voru óþægilega sýnilegir í Úkraínu um þær mundir. Samkomulag náðist við Janúkóvitsj með atbeina þeirra og bandarískra sendimanna um að hann léti yfir sig ganga að forsetakosningum yrði flýtt í landinu. Talið var að Pútín, forseti Rússlands gæti, eftir atvikum, unað við þessa niðurstöðu.

En þetta samkomulag forseta Úkraínu við fulltrúa hinna valdamiklu erlendu blokka var ekki gert í nægjanlegu umboði við „grasrótina“ í Úkraínu. Hún taldi sig bersýnilega ekki bundna af neinu.

Óeirðir urðu nú stjórnlausar. Forseti landsins sagði að ekki væri hægt að tryggja öryggi sitt eða fjölskyldu sinnar við þessar aðstæður og flúði höfuðborgina og fór skömmu síðar til Rússlands. Úkraínska þingið vísaði þá til ótilgreindra stjórnarskrárvarinna heimilda og ákvað í febrúar að efna til forsetakosninga strax í maí þar sem forsetinn væri augljóslega orðinn ófær um að gegna skyldum sínum.

Þessi atburðarás varð allt önnur en Evrópusambandið hafði teiknað upp. Rússar og stór hluti almennings í Austur-Úkraínu töldu sig einnig illa svikin. Ekki aðeins af þeim stjórnvöldum sem hrifsað höfðu völdin í Kiev heldur einnig af helstu stuðningsaðilum þeirra erlendis.

Rússar tóku Krímskaga til sín á nýjan leik, með viðeigandi leikrænum tilburðum. ESB og Bandaríkin mótmæltu þeirri aðgerð en augljóst þótti að lítil innstæða væri í þeim mótmælum. Stofnað var til málamyndaefnahagsþvingana, enda vissu allir að Krímskaganum yrði ekki skilað í bráð. Hann yrði þar sem hann hefur verið lungann af síðustu þremur öldunum.

En öðru máli gegndi þegar svonefndir aðskilnaðarsinnar tóku að færa sig upp á skaftið í öðrum hlutum Austur-Úkraínu. Bandaríkin þrýstu þá á auknar refsiaðgerðir. ESB-ríki létu ekki ólíklega en drógu samt lappirnar, enda eru aðgerðirnar þungbærari þeim en stjórninni í Washington. Ömurlegt illvirki, aula- og óhappaverk, manna sem kunnu ekki að fara með háþróuð loftvarnakerfi, en fengu þó að hafa þau í fórum sínum, gjörbreyttu öllu. Fávís fól skutu niður risaþotu í 33.000 feta hæð, sneisafulla af farþegum. Nú gátu ríki ESB ekki látið nægja að taka vel í kröfur um refsiaðgerðir. Þau neyddust til að láta sýnilegar athafnir fylgja orðum sínum.

Hvað sem sjónarmiðum okkar á Vesturlöndum líður er enginn vafi á því að Rússar telja illa komið fram við sig í Úkraínumálinu. Þeir telja og hafa töluvert til síns máls (birt hafa verið hleruð símtöl ráðamanna vestra sem skipuleggja hverjir eigi að fara með völdin í Úkraínu) að utanaðkomandi öfl hafi ýtt undir „valdaránið.“ Þeir telja sömu hafa brugðist þeim samningi sem náðst hefði með atbeina Rússa og Janúkóvitsj um undanlátssemi við andófsöfl í Úkraínu. Þeir telja að Bandaríkin og Nato hafi algjörlega svikið þekkt (munnlegt) samkomulag George H.W. Bush við Mikhaíl Gorbatsjov við lok kalda stríðsins og upplausn Ráðstjórnarríkjanna. Þá hafi því verið lofað að Nato og ESB myndu ekki verða með neinar ögrandi aðgerðir í allra næsta nágrenni Rússlands.

Pútín hefði gert Bandaríkjunum og bandamönnum þess fært að heyja stríðið í Afganistan í kjölfar árásanna 11. september 2001. Þar hefði hann sýnt bæði samstarfsvilja og diplómatíska vinsemd. Af öllum þessum ástæðum þykir Rússum að refsiaðgerðir gegn sér séu ómaklegar og þeir hafi því fullan rétt á að mæta þeim í sömu mynt.

Ekkert samstarf hefur, svo vitað sé, verið haft við íslensk yfirvöld í þessum stórfiskaleik öllum. Enda naumast þörf. Og það þarf ekkert samstarf við Ísland til þess að það fordæmi árásina ógurlegu á farþegaflugvélina. Ísland tekur sjálfkrafa afstöðu með þjóðum sem telja sig með réttu vera að verja fullveldi sitt fyrir ágangi. Efnahagslegu refsiaðgerðirnar snúast ekki um Krímskagann. Það viðurkenna allir að væri það svo þá þyrftu þær að standa æði lengi.

Pútín forseti hefur sterka stöðu heima fyrir núna. En hann hefur þó ekki stöðu til þess að gefa frá sér Krímskagann aftur. Það yrði honum aldrei liðið.

Í ljósi þessa alls er a.m.k. dálítið sérkennilegt að heyra íslenska stjórnmálamenn krefjast skýringa Rússa á því hvers vegna í ósköpunum þeir loki ekki þegar í stað á viðskipti við Íslendinga.