Júlíus Havsteen amtmaður fæddist á Akureyri 13.8. 1839. Foreldrar hans voru Jóhann Godtfred Havsteen, kaupmaður á Akureyri, og k.h., Sophie Jacobine Havsteen, f. Thyrrestrup, húsfreyja. Jóhann var bróðír Péturs Havstein, amtmanns og alþm.

Júlíus Havsteen amtmaður fæddist á Akureyri 13.8. 1839. Foreldrar hans voru Jóhann Godtfred Havsteen, kaupmaður á Akureyri, og k.h., Sophie Jacobine Havsteen, f. Thyrrestrup, húsfreyja.

Jóhann var bróðír Péturs Havstein, amtmanns og alþm. á Möðruvöllum, föður Hannesar Hafstein, skálds og ráðherra. Auk þess voru þrír tengdasynir Péturs ráðherrar, Jón Þórarinsson fræðslumálastjóri, afi Jóhanns Hafstein forsætisráðherra, Jónas Jónassen landlæknir, og Lárus H. Bjarnason, sýslumaður, rektor og hæstaréttardómari.

Júlíus kvæntist danskri konu, Johanne Margrethe, dóttur Otto Westengaards ofursta í danska landhernum, og eignuðust þau tvö börn, Helgu, eiginkonu Henry Gad, höfuðsmanns í sjóher Dana, og Ottó Jacob, heildsala í Reykjavík.

Júlíus lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1859 og embættisprófi í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1866. Hann var síðan aðstoðarmaður og fulltrúi hjá amtmanninum í Holbæk á Sjálandi, varð aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn 1870, amtmaður í Norður- og Austuramtinu 1881 og amtmaður í Suður- og vesturamti frá 1894-1904 er amtmannaembættin voru lögð niður. Þá var hann forseti amtsráðs suðuramtsins til 1907 er þau voru aflögð.

Júlíus hafði töluverð afskipti af pólitík, var bæjarfulltrúi á Akureyri 1885-93 og konungkjörinn þingmaður 1887-91, og 1899 til dauðadags. Hann fylgdi Heimastjórnarflokknum að málum, var konunghollur og íhaldssamur, formfastur og reglusamur, þótti fyrirmynd annarra embættismanna, starfsamur og samvinnuþýður þingmaður og var í hópi löglærðustu manna sinnar samtíðar. Hann gegndi því ýmsum öðrum trúnaðarstörfum, var m.a. endurskoðandi Íslandsbanka frá stofnun 1904 og til æviloka.

Júlíus var aldursforseti Alþingis er hann lést úr inflúensu 3.5. 1915.