Joanne Pavey
Joanne Pavey
Breska hlaupakonan Joanne Pavey, sem verður 41 árs í næsta mánuði, vann sigur í 10.000 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Zürich í gær. Pavey, sem er tveggja barna móðir, kom í mark á 32 mínútum og 22,39 sekúndum.

Breska hlaupakonan Joanne Pavey, sem verður 41 árs í næsta mánuði, vann sigur í 10.000 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Zürich í gær.

Pavey, sem er tveggja barna móðir, kom í mark á 32 mínútum og 22,39 sekúndum. Hún varð 1,19 sekúndum á undan Clémence Calvin frá Frakklandi. Laila Traby, einnig frá Frakklandi, tók bronsið á 32:26,03 mínútum.

„Ég trúi þessu ekki. Ég er gjörsamlega í skýjunum,“ sagði Pavey, sem er fjórfaldur Ólympíufari en hefur þó aldrei unnið til verðlauna á Ólympíuleikum. Sigurinn í gær var hennar stærsti á löngum ferli.

„Það er í raun fyndið að ná þessu loks nú þegar maður er orðinn 40 ára. Ég ætti að vera búin að læra hvernig á að gera þetta núna,“ sagði Pavey létt. „Það vakti upp miklar tilfinningar að vita af Emily dóttur minni hérna að fylgjast með mér í fyrsta sinn. Við héldum að hún yrði kannski hrædd en ákváðum að taka sénsinn á því,“ bætti hún við. sindris@mbl.is