Björk Agnarsdóttir fæddist 16. október 1968. Hún lést á heimili sínu 29. júlí 2014. Útför hennar var gerð 11. ágúst 2014.

Björk var yndisleg og hlý manneskja sem ég var svo heppin að kynnast í kærleikanum árið 2007. Með tímanum tókst með okkur mikill systrakærleikur og trúnaðarvinskapur. Við töluðum saman í símann á hverjum einasta degi og hittumst tvisvar til þrisvar í viku og þess vegna finn ég fyrir miklu tómlæti við andlát hennar og sakna hennar alveg rosalega mikið. Vegna þess að hún gaf mér skilyrðislausan kærleika og mikla vinsemd og var alltaf til staðar þegar ég þarfnaðist hennar.

Hvað á ég að gera án hennar? spyr ég bara. Að missa hana er eins og að missa líkamspart sem kemur ekki aftur. Ég hef sjálf verið í baráttu við geðsjúkdóm sem ég greindist með og Björk var mér ómæld hjálp í baráttunni við hann.

Alltaf kom hún að heimsækja mig á geðdeildina, alveg sama hvernig henni leið sjálfri. Undantekningarlaust hughreysti hún mann með orðum sínum, nærveru og yndisleik. Ég dáðist að henni Björk fyrir svo marga eiginleika sem hún hafði, eins og til dæmis hógværðina og lítillætið sem einkenndi hana í sinni baráttu við sinn sjúkdóm. Og dugnaðurinn í henni var rosalegur, alltaf fór hún í göngutúrana og alltaf mætti hún í Geysi og þjónaði í kirkjunni.

Einnig starfaði hún ötullega fyrir Geðhjálp til margra ára og geri aðrir betur miðað við veikindin sem hún var að glíma við sjálf. Ég reyndi eins og ég gat að hughreysta hana í sínum veikindum en oft var ég of veik sjálf til þess að það væri nokkur hjálp í mér. Eins og síðustu dagana hennar Bjarkar, þá var ég ekki fær um að vera henni stoð og stytta vegna minna eigin veikinda, en ég vildi óska þess að ég gæti farið til baka og sagt henni að það sem ég gerði væri ekki rétt. Ég nefnilega sprakk á limminu alveg eins og hún og reyndi að taka mitt eigið líf, en það tókst ekki og ég ásaka sjálfa mig fyrir að hafa ekki verið betri fyrirmynd.

Án Bjarkar er lífið miklu fátækara og gleðisnauðara, ég sakna svo stundanna sem við áttum saman.

En ég veit fyrir víst að hún er komin heim til Guðs eins og ég veit að hún þráði svo mikið. Ég trúi því statt og stöðugt að Jesú hafi leitt hana til Föðurins og þar er hún núna án kvalar og án þjáningar; og sé búin að finna þann frið sem hún þráði svo mikið en fann ekki hér á jörðinni.

Björk var ekki af þessum heimi, hún var af hinum komandi heimi og meiri engil en hana er erfitt að finna og þess vegna skil ég Guð að hafa tekið hana heim til sín þar sem hún á heima og ég hlakka til að hitta hana þar þegar mínu lífi lýkur hér á jörðinni. En nú varir trú, von og kærleikur, en þeirra er kærleikurinn mestur og ég hef sjaldan upplifað eins mikinn kærleika um ævina og frá henni systur minni í Kristi og minni bestu vinkonu, henni Björk Agnarsdóttur. Blessuð sé minning þín, elskan mín. Ég hlakka til að hitta þig aftur í ríki Guðs.

Veistu ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Úr Hávamálum)

Kær kveðja,

Svandís Ásta Jónsdóttir.

Elsku Björkin mín, sterkust allra. Ég hef ekkert vit á trjáplöntum en svo mikið er víst að þú varst sterkust þinnar tegundar.

Eins þreyttur og maður gat orðið á þrjóskunni í þér á meðan við vorum að alast upp, eins þakklátur var maður fyrir hana þegar þú þurftir að takast á við þær byrðar sem á þig voru lagðar.

Ég hugsa oft um myndina úr fornsögunum okkar af köppunum Óðni og Þór að glíma við Elli kerlingu, engin leið var að ráða niðurlögum hennar, þannig var þín daglega barátta. Ég hef verið svo stolt af þér, en gerði mér grein fyrir í samtölum við foreldra þína á undanförnum misserum að þú varst orðin langþreytt á eilífri baráttu. En við vissum að ekkert annað var í boði.

Á þessu augnabliki er ég þakklát fyrir gullnar stundir með þér, eins og þegar þú varst hjá okkur á meðan Rakel Rósa var með kórnum sínum í Berlín.

Eða þegar þú sýndir mér fallegu íbúðina þína og við sátum úti í garði í sólinni með veitingar sem þú hafðir útbúið. Nú er stríðinu þínu lokið og þú hefur fengið frið, eins sárt eins og það er fyrir okkur sem horfum á bak þér.

Elsku Agga, Aggi og Rakel Rósa, ég óska þess að sorgin bugi ykkur ekki, það hefði hún Björk okkar ekki viljað. Megið þið öðlast styrk til að horfa í þakklæti framávið.

Ykkar

Soffía og fjölskylda

í Berlín.

Kveðja frá Klúbbnum Geysi

Með sorg í hjarta kveðjum við hana Björk okkar. Björk gerðist félagi í Klúbbnum Geysi í ársbyrjun 2002. Hún tók virkan þátt í að halda uppi heiðri Geysis og var virk í öllu sem tengdist starfi hans. Hún var vinur vina sinna og hún gaf sér alltaf tíma til að spjalla og spyrja hvernig gengi og hvað við værum að gera.

Það er mikill missir að sjá hana ekki lengur koma í klúbbinn með alla sína góðu nærveru og hlýju sem hún gaf okkur öllum. Hún átti sína góðu og slæmu daga eins og við öll, en þrátt fyrir allt brosti hún alltaf og gerði sem best úr hlutunum.

Í svefnrofunum

ég man

eitt gamalt

morgunsár

ég vaknaði

eftir vondan draum

í draumi þeim þurfti ég

að byggja brýr

án þekkingar

mér var falið að búa til veggi

án múrsteina

ég þurfti að klífa fjöll

án fylgdar

ég horfði til himins

á fjalli einu

þar bað ég Drottin

að breyta mér

því þá gæti ég

byggt brýr

búið til veggi

og klifið fjöll

(Halla Snorradóttir félagi

í Klúbbnum Geysi.)

Hennar verður fyrst og fremst minnst sem góðs vinar sem gaf óendanlega frá sér vilja og trú um að lífið gæti alltaf verið betra þrátt fyrir skúrir. Bjarkar verður sárt saknað í Geysi og sendum við fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. félaga og starfsfólks Klúbbsins Geysis,

Þórunn Helga

Garðarsdóttir og Helgi

Halldórsson.