Stefán Rúnar Sigurðsson fæddist á Seyðisfirði 2. nóvember 1965. Hann lést 2. ágúst 2014.

Foreldrar hans eru hjónin Katrín Björg Aðalbergsdóttir, f. 16. júní 1935, og Sigurður Sigurgeirsson, f. 2. febrúar 1935, d. 12. október 1991.

Árið 1991 hófu Rúnar og Lilja Guðrún Viðarsdóttir, f. 30. ágúst 1975, sambúð og eignuðust þau þrjú börn. Anna Stefánsdóttir, f. 16. febrúar 1994, d. 16. febrúar 1994. Drengur Stefánsson, fæddur og dáinn 1995. Thelma Líf Stefánsdóttir, fædd 17. apríl 1996. Rúnar og Lilja slitu samvistum 2003.

Hinn 8 maí. 2004 giftist hann Idu Jeremíassen, f. 18. mars 1977 og eignuðust þau eina stúlku, Selmu Louise Benedikte Stefánsdóttur, f. 30. nóvember 2005. Þau slitu samvistum 2006.

Útför Stefáns Rúnars fer fram frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 13. ágúst 2014, kl. 14.

Það er ekki alltaf auðvelt að alast upp í litlu sjávarþorpi, þar sem allir þekkja alla. Því fékk hann Rúnar frændi svo sannarlega að kynnast, enda fylgdi honum skuggi ævina á enda, skuggi sem hafði áhrif á hann og allt hans líf. Hann var ekkert venjulegur drengur, hugmyndaríkur, fjörugur, mikill húmoristi og töluvert misskilinn, eins og gerist gjarnan um þá sem lenda utanveltu í samfélaginu.

Við vorum alin upp á sömu torfu, við Hafnargötuna á Seyðisfirði. Þarna bjuggu amma og afi, mamma, Einar frændi og Stella og Siggi, að ótöldum börnunum sex. Þarna var oft glatt á hjalla og ýmislegt brallað, eins og gengur og gerist.

Göngutúrinn í skólann gat oft tekið sinn tíma, enda ýmislegt að sjá sem gat glapið hugann og tafið fyrir. Það var til dæmis ekki auðvelt að ganga alla þessa leið í skólann með plastpoka á hendinni, sem dýft hafði verið í sýróp. Þetta þurfti auðvitað að sleikja og klára áður en við komum í skólann. Ófáar voru ferðirnar sem við fórum á „jullunni“ hans afa, ekkert endilega með leyfi, en þetta var bara allt í lagi vegna þess að við vorum með björgunarvesti!

Karlarnir í Norðursíld kímdu ekki lítið þegar tveir þrettán ára unglingar, sem töldu sig vera í stórútgerð, lögðu upp þorsk, ýsu og risalúðu, sem þeir höfðu veitt á handfæri á árabát á Seyðisfirði.

Þeir draumar urðu því miður ekki langlífir! Stífluframkvæmdir vegna sundlaugargerðar hófust einnig snemma á Austurlandinu, þegar bæjarlækurinn var stíflaður við fossbrúnina og var árangurinn slíkur að fossinn hvarf með tilheyrandi fjaðrafoki og umvöndunum. Það fór þó eins með stíflugerðina og stórútgerðina, þeim skolaði burt, en minningarnar um framkvæmdagleðina lifa svo sannarlega.

Eins og oft verður þegar fólk kemst á unglingsárin, þá fara leiðir að skiljast. Svo fór einnig með okkur, það er þó ekki hægt að segja að þráðurinn hafi alveg slitnað, heldur tognaði á honum á þessu tímabili. Hann var reyndar alltaf í miklu sambandi við pabba og þannig vissum við alltaf af honum. Síðustu árin hefur sambandið verið meira og er óhætt að segja að við séum betri manneskjur af því að hafa fengið að verja þeim tíma með honum, því Rúnar frændi var einstaklega góður maður og ljúfur og mælti ekki styggðaryrði um nokkurn mann. Orrusturnar voru margar sem hann háði við sinn innri mann og ekki voru þær auðveldar.

Okkur þykir vænt um að hafa fengið símtal frá honum í síðustu viku, þar sem hann lék á als oddi. Við kveðjum Rúnar frænda með söknuði, en jafnframt þakklæti fyrir að fá að hafa fengið að ganga með honum lífsins veg. Sú ganga hefði mátt vera lengri og vegurinn hefði mátt vera malbikaður!

Rannveig, Hrafnhildur

og fjölskyldur.