Árni Matthíasson: "Ég var að fletta í gegnum myndasafn sumarsins, kominn að myndum frá göngu eftir ítölsku fjalllendi, frá Riomaggiore til Portovenere, þegar ég rakst á mynd af ókunnugum manni, manni á miðjum aldri, lura- og lúðalegum sem vissi greinilega ekki hvað hann..."

Ég var að fletta í gegnum myndasafn sumarsins, kominn að myndum frá göngu eftir ítölsku fjalllendi, frá Riomaggiore til Portovenere, þegar ég rakst á mynd af ókunnugum manni, manni á miðjum aldri, lura- og lúðalegum sem vissi greinilega ekki hvað hann væri að gera (sjá meðfylgjandi mynd).

Það er náttúrlega óþægilegt þegar boðflenna ryðst inn á mann og verst af öllu þegar boðflennan er maður sjálfur; þegar maður sér sjálfan sig í raun en ekki bara ímyndina sem maður er með í kollinum.

Ég átti þó verra í vændum; á mynd sem tekin var af barnabörnunum sumarið 2013 var annar miðaldra karl, náfölur og digur, að vaða með þeim í Nauthólsvík – svona leikur lífið mann hugsaði ég þegar ég sá myndina og það þyrmdi yfir mig. Fram að þessu sá ég nefnilega sjálfan mig fyrir mér sem grískt goð en í ljós kom að ég var kannski ekki það goð sem ég hélt. Þó að ég sé vissulega með fallega fætur.

Nú heldur þú kannski, ljúfi lesandi, að ég sé með böggum hildar vegna vaxtarlags míns en það er öðru nær, ég er nefnilega svo vel staddur að ég er miðaldra karlmaður og því ekki settur undir sama ok og konur þar sem atvinnumöguleikar, starfsframi og laun geta farið eftir því hversu fönguleg viðkomandi er. Vei þeirri konu sem er miðaldra, luraleg og digur! Þó að hún sé kannski með fallega fætur.

Til eru rannsóknir sem sýna að laun kvenna lækka eftir því sem þær fitna og framamöguleikum fækkar. Þessa sér og stað í umfjöllun fjölmiðla; meiri áhersla er lögð á að kona sé glæsileg útlits en hvað hún hefur fram að færa og sífellt skín í gegn að það sé mikilvægara að líta vel út en að líða vel. Gott dæmi um þetta rak á fjörur mínar í gær: Í sjónvarpsþætti á Fox-sjónvarpsstöðinni lét gestur þau orð falla að ekkert mark væri takandi á Michelle Obama, eiginkonu Bandaríkjaforseta, í baráttu hennar fyrir bættu heilsufari ungmenna – hún væri svo feit.

En, er þetta ekki að breytast? spyrðu lesandi góður, og svarið er jú, víst er þetta að breytast en ekki á þann hátt sem maður hefði helst kosið – málið er nefnilega að ungir karlmenn eru á sömu braut; sára óánægðir með útlit sitt og fastir í líkamsdýrkun og öfgum. Hlustaðu bara á útvarpsstöðvar sem gera út á unga karla – lunginn af auglýsingum snýst um fæðubótarefni, orkudrykki og líkamsrækt, afgangurinn um smálán til að borga fyrir allt klabbið.

Að því sögðu þá er enn langt í land með að ungir karlar fyllist eins mikilli óbeit á líkama sínum og ungar konur, langt í land með að meirihluti þeirra fari í megrun fyrir fermingu og séu í megrun meira og minna það sem eftir er ævinnar, langt í land með að þeir hafi fótósjoppaðar myndir sem fyrirmyndir og langt í land að miðaldra menn gjaldi þess að vera orðnir gamlir og digrir – nema þeir séu kannski með fallega fætur. arnim@mbl.is

Árni Matthíasson