Jón Árni Vilmundarson fæddist í Reykjavík 16. desember 1925. Hann lést á Hrafnistu í Kópavogi 23. júlí 2014. Foreldrar hans voru hjónin Vilmundur Ásmundsson, verkamaður í Reykjavík, f. 9.12. 1879, að Vogsósum í Selvogi, d. 15.12. 1959, og Valgerður Þorbjörg Jónsdóttir, f. 31.7. 1895, á Króki á Rauðasandi, d. 28.12. 1944. Systkini Jóns Árna: Þórunn Vilmundardóttir eldri, f. 19.6. 1917, d. 17.3. 1920; Þórunn Vilmundardóttir, f. 22.10. 1920; Guðrún Louisa Vilmundardóttir, f. 4.9. 1924, d. 24.11. 2004; Valgerður Guðrún Vilmundardóttir, f. 30.11.1927, d. 27.5.2011; Ragnheiður Laufey Vilmundardóttir, f. 31.7. 1929, d. 6.1. 1982; Vilborg Ása Vilmundardóttir, f. 31.8. 1930, d. 15.3. 2000; drengur Vilmundarson, f. 11.11. 1934, d. 11.11. 1934.

Jón Árni ólst upp í vesturbænum en síðar flutti fjölskyldan á Háteigsveginn, þar sem systkinin hjálpuðust að við heimilisreksturinn. Árið 1956 flutti Jón Árni á Dunhaga 11 ásamt föður sínum og Guðrúnu systur sinni, en Jón Árni og Guðrún héldu saman heimili alla tíð þar til Guðrún lést árið 2004. Jón Árni flutti í lok árs 2013 að Hrafnistu í Kópavogi þar sem hann lést.

Jón Árni var á Héraðsskólanum á Núpi og lærði síðar að verða loftskeytamaður. Hann fór utan og sótti sér þekkingu og var alla tíð að bæta við sig námi og fróðleik á þessu sviði. Árið 1983 fékk hann réttindi sem rafeindavirkjameistari. Hann vann lengst af hjá Landsímanum og var þar deildarstjóri þar til hann lét að störfum tæplega sjötugur.

Útför Jóns Árna fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 13. ágúst 2014 og hefst athöfnin klukkan 13.

Mig langar í nokkrum orðum að minnast frænda míns Árna, sem hefur frá því ég fæddist átt sinn þátt í mínu lífi og var mér eins og afi.

Hjá Árna og Gunnu á Dunhaganum bjó ég mitt fyrsta æviár ásamt mömmu og pabba og þó að ég muni ekki eftir þessum tíma þá var Árni alltaf duglegur að segja mér sögur af sjálfri mér og átti ógrynni af myndum af okkur saman í göngutúrum sem og annars staðar.

Þegar ég varð eldri minnist ég hans sem „besta frændans“. Hann hafði óþrjótandi áhuga á að fylgjast með hvað ég tók mér fyrir hendur og var duglegur að hvetja og ögra manni til að læra og standa sig vel í lífinu. Öll mín bernskujól voru Árni og Gunna hjá okkur fjölskyldunni og ósjaldan fór Árni með okkur í sólarfrí til útlanda. Árni var fróðleiksfús, var alltaf að lesa og læra nýja hluti og var duglegur að miðla þekkingu sinni til okkar. Það var alltaf gaman að tala við Árna og fylgdist hann vel með hvað gerðist í heiminum og vissi margt og mikið um sögu, vísindi og tækni. Hann hafði mikinn áhuga á stórfjölskyldunni og mikinn áhuga á ættfræði og sögu fjölskyldunnar langt aftur í ættir. Hann var listrænn og málaði myndir en tók líka ógrynni af myndum, bæði af landslagi og fólki. Hann var einkar tæknilega sinnaður miðað við sinn aldur, fylgdist vel með og tileinkaði sér notkun tölvunnar þegar hún kom til sögunnar og allt fram til þess síðasta. Árni var sérlega barngóður og náði vel til barnanna í fjölskyldunni og átti auðvelt með að tala við þau og sýna þeim áhuga.

Við fjölskyldan minnumst Árna með hlýju og erum þakklát fyrir samfylgdina í gegnum árin.

Hugrún Linda Guðmundsdóttir og fjölskylda.