Al Gore
Al Gore
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Nýverið fór fram fundur í veiðihúsinu Flóðvangi í Vatnsdal, en um árlegan fund er að ræða sem fjallar um sjálfbæra þróun og bætta nýtingu auðlinda heimsins.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Nýverið fór fram fundur í veiðihúsinu Flóðvangi í Vatnsdal, en um árlegan fund er að ræða sem fjallar um sjálfbæra þróun og bætta nýtingu auðlinda heimsins. Bandaríkjanaðurinn William McDonough býður jafnan til fundarins en hann er frægur arkitekt og hefur vakið athygli fyrir framúrstefnulega umhverfisstefnu sína.

Heimildir Morgunblaðsins herma að Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels, hafi sótt fundinn ásamt því að veiða í Vatnsdalsá.

Pétur Pétursson, leigutaki árinnar og staðarhaldari á Flóðvangi, segir að fundurinn hafi nú verið haldinn árlega í átta eða níu ár og standi reglulega yfir í sex daga. Fundað sé á hverjum degi auk þess sem færi gefst fyrir fundargesti til að skoða náttúruna og veiða í ánni.

Síðasta áratug hefur McDonough stefnt saman í Vatnsdal fjölbreyttum hópi gesta, kunnum uppfinningamönnum, framsæknum hönnuðum, viðskiptajöfrum og vísindamönnum. Bandaríska leikkonan Susan Sarandon sótti fundinn í fyrra og hefur leikstjórinn Steven Spielberg einnig verið gestur fundarins.

Undanfarin ár hefur danski matreiðslumeistarinn Søren Westh undirbúið mikla veislu fyrir fundargesti og nýtt til þess ýmsar jurtir úr Vatnsdalnum og næsta umhverfi Flóðvangs. Pétur segir fundinn ríma vel við stefnuna sem veiðihúsið hefur sett sér. „Menn eru oft uppveðraðir yfir því að ekki hafi verið sett seiði í ána síðan árið 1998, en hér er laxinum alltaf sleppt.“