Vann Recep Tayyip Erdogan fagnar sigri þegar talningu er að ljúka.
Vann Recep Tayyip Erdogan fagnar sigri þegar talningu er að ljúka. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Jónsson kjon@mbl.

Baksvið

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Hann virkar stirðbusalegur og kuldalegur þegar hann sækir Vesturlönd heim enda talar hann engin erlend tungumál en er í essinu sínu á hávaðasömum fjöldafundum í heimalandinu og hefur nú náð takmarkinu: Hinn sextugi Recep Tayyip Erdogan hefur verið kjörinn forseti Tyrklands eftir 11 ára setu sem forsætisráðherra. Mikill uppgangur frá 2002, að meðaltali 5,6% árlegur hagvöxtur og pólitískur stöðugleiki eftir langa ókyrrð fyrri ára tryggðu honum nær 52% atkvæða í forsetakosningum um helgina. Nái hann endurkjöri eftir fimm ár munu Tyrkir fagna 100 ára afmæli lýðveldisins árið 2023 undir forystu hans.

Allra síðustu árin hafa reyndar verið Erdogan erfið og mikil þátttaka verið í mótmælum gegn vaxandi einræðistilburðum hans, spillingu og tilraunum til að auka veg heittrúaðra múslíma, m.a. með því að ýta undir slæðuburð kvenna. Í stjórnarskránni er áhersla á að ríkisvaldið sé veraldlegt, ekki háð reglum íslams. Þannig tilhögunar krafðist landsfaðirinn og stofnandi lýðveldisins, Kemal Atatürk. Erdogan hefur samt oftast reynt að fara milliveg í þessum efnum.

Hann hefur hins vegar ekki hikað við að leggja til atlögu við æðstu menn hersins sem áratugum saman sáu til þess að trúin ryddist ekki inn í stjórnkerfið. Öðru hverju rændu þeir völdum; lýðræðið í Tyrklandi var veikt og oft hunsað.

Ekki af yfirstéttinni

Erdogan er sonur liðsmanns í strandgæslunni, hann fæddist ekki með silfurskeið í munni. Foreldrar hans fluttu frá borg á Svartahafsströndinni, Rize, til Istanbúl þegar hann var 13 ára. Á unglingsárunum seldi hann gosdrykki í fátækrahverfum Istanbúl til að næla sér í vasapeninga. Um hríð var hann atvinnumaður í fótbolta. En hann lauk háskólaprófi í stjórnun við Marmara-háskóla og gekk til liðs við hreyfingu íslamista. Varð hann borgarstjóri í Istanbúl 1994, þótti standa sig vel og vera óspilltur. En hann afplánaði síðar nokkurra mánaða dóm fyrir trúarofstækisáróður. AK-flokkinn stofnaði hann 2001 og varð svo forsætisráðherra 2003.

Þjóðernissinnaðir landar Erdogans eru hreyknir af því að landið skuli vera að rísa á ný og stefna á forystuhlutverk í öllum Miðausturlöndum með stórveldi soldánsins að fyrirmynd en það hrundi 1918. Áhuginn á aðild að Evrópusambandinu hefur hins vegar dvínað hratt, bæði í ESB og Tyrklandi sjálfu.

Tyrkland er orðið mikið iðnveldi með rúmlega 80 milljónir íbúa og Erdogan er ekki aðeins geysivinsæll í eigin landi heldur líka meðal araba sem nær allir deila íslamstrú með Tyrkjum. Almenningur í arabalöndum ýmist fyrirlítur eða hatar eigin leiðtoga vegna hroka þeirra, grimmdar, spillingar og dugleysis en sjá í Erdogan „sterka manninn“ sem tekst allt. Eða nærri allt. Og núna gagnrýnir hann auk þess Ísrael harkalega sem er vinsælt meðal araba. Og Erdogan er þar að auki lýðræðislega kjörinn þótt gagnrýnt sé hversu mjög hann hafi misbeitt valdi sínu í kosningabaráttunni.

Forsetaembættið er núna valdalítið en Erdogan hyggst knýja fram breytingar. Hann segist ekki ætla að verða bara þjóðartákn, skrautfígúra. Formsins vegna þarf AK-flokkur hans að fá minnst tvo þriðju hluta í þingkosningum næsta vor til að ná fram stjórnarskrárbreytingu um aukin forsetavöld. En margir álíta að takist það ekki muni „sterki maðurinn“ samt breyta embættinu, hvað sem tautar og raular.