Snorri Stefánsson fæddist 4. október 1958. Hann lést 15. júní 2014. Útför hans fór fram frá Digraneskirkju 6. ágúst 2014.

Þetta eru eflaust þau erfiðustu orð sem ég hef nokkurn tíma sett á blað. Að kveðja einhvern sem okkur var svo kær er það erfiðasta sem ég hef reynt og mun marka líf mitt og okkar fjölskyldunnar svo lengi sem við lifum. Gleðilegt fas hans alla daga var einstakt og það vita allir sem þekktu hann Snorra okkar.

Það gerðist fyrir áratugum að Vallý kynnti okkur hjónin fyrir þessum dreng er við Gurra bjuggum í Noregi. Frá þeim degi hófst vinátta okkar og ekki leið sá dagur að við ættum ekki samtal með einhverjum hætti um eitthvað, eða jafnvel ekki neitt, bara til að tala saman. Nú hefur síminn þagnað. Eftir situr sorg og söknuður eftir góðum vini sem lét sér annt um allt og alla. Það kann eflaust einhverjum að finnast það skrýtið og hallærislegt á þessari tækniöld að manni finnist erfitt að eyða út tengilið með númeri í símaskrá. Hér sit ég samt, með símann í höndunum, og hugsa til þess hversu endanlegt það er og sárt að hugsa til þess að aldrei aftur muni ég sjá „Snorri gsm“ á mínum skjá, aldrei aftur. Ef ég eyði númerinu verður það svo raunverulegt að þú hringir aldrei aftur.

Snorri Stefánsson, vinur okkar var fæddur 4. október 1958. Hann var athafnamaður, átti marga vini, og hallmælti engum og umfram allt hafði hann þann einstaka eiginlega að tala við fólk með sinni innilegu glaðværð, hlýju, gleði og brosi, sem svo mörgum er minnisstæð. Hann var allra manna hugljúfi. Hann var minn besti vinur.

Við munum aldrei geta farið þann veg að rifja upp allar okkar góðu minningar í þessari stuttu grein. Að gera þeim skil þyrfti margar síður, en hann yrði hverrar blaðsíðu virði. Hvað tekur við þar sem minningarnar enda? Okkur er sagt að þeir bestu séu kallaðir á æðri staði og til stærri verkefna. Fyrst núna trúi ég því að svo hljóti að vera. Svo mikið gaf Snorri okkur og svo sárt verður hans saknað að ég trúi því að það myndi enginn gera nema hans væri sár þörf á öðrum stað. Snorri yrði vel til þess fallinn að gegna slíku hlutverki.

Já, það eru mörg ár síðan Vallý kom með þennan dreng til okkar til Noregs og nú, eftir allan þann tíma sem við áttum saman, kveð ég hann þaðan sem vegferðin hófst. Það er kaldhæðni fólgin í því að við hittumst og kveðjumst í þessu sama landi, sem þó er okkur báðum ókunnugt.

Elsku Halla Sif, Tinna Ösp, Telma Ýr og barnabörn. Megi algóður guð veita ykkur styrk til að takast á við þann mikla söknuð og sorg sem býr í brjósti ykkar. Elsku Vallý okkar. Við getum ekki í harmi okkar lýst þeirri sorg sem nú hvílir yfir. Þið hafið verið okkar bestu félagar og vinir gegnum tíðina. Allar minningar hrannast nú yfir og það eina sem við getum gert er að minnast allra þeirra góðu stunda sem við áttum með vini okkar, hvar í veröldinni sem við vorum stödd. Við Gurra og börnin okkar sendum þér og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur og vonum að sá almáttugi vaki yfir ykkur og varðveiti.

Þorsteinn og Guðrún.