Áratugur Mikið vatn hefur runnið til sjávar hjá Porto síðan þessi mynd var tekin fyrir rúmum tíu árum, þegar félagið varð Evrópumeistari.
Áratugur Mikið vatn hefur runnið til sjávar hjá Porto síðan þessi mynd var tekin fyrir rúmum tíu árum, þegar félagið varð Evrópumeistari. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Knattspyrnufélög eru ekki ólík venjulegum fyrirtækjum hvað rekstur varðar. Ég rek reyndar ekki eitt slíkt sjálfur en ímynda mér að hlutirnir snúist um að græða, hvort sem maður rekur verslun eða íþróttafélag.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Knattspyrnufélög eru ekki ólík venjulegum fyrirtækjum hvað rekstur varðar. Ég rek reyndar ekki eitt slíkt sjálfur en ímynda mér að hlutirnir snúist um að græða, hvort sem maður rekur verslun eða íþróttafélag. Forráðamenn portúgalska félagsins Porto virðast vera með meirapróf hvað þessa viðskiptahætti varðar, sérstaklega þegar rýnt er í kaup og sölur þeirra síðasta áratuginn.

Porto er eitt sigursælasta félag Portúgals, hefur 27 sinnum orðið meistari heima fyrir, síðast í fyrra, og vann Meistaradeild Evrópu fyrir sléttum tíu árum undir stjórn Jose Mourinho. Það er fróðlegt að skoða hvernig leikmannaveltan hefur verið hjá félaginu síðan þá.

Á síðustu tíu árum hefur félagið selt leikmenn fyrir 614 milljónir punda, tæplega 120 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag, en ekki keypt á móti fyrir nema um helming af því sem komið hefur í kassann. Þrátt fyrir það hefur liðið haldið dampi og margir þekktir leikmenn skotist upp á stjörnuhimininn í bláhvíta búningnum, sem síðan eru jafnan seldir á margföldum gróða.

Mourinho byrjaði með látum

Eftir að Manchester City gekk frá kaupunum á varnarmanninum Eliaquim Mangala fyrir 32 milljónir punda á dögunum hefur Porto selt 15 leikmenn fyrir meira en 15 milljónir punda á síðustu tíu árum. Geri aðrir betur. Sem dæmi er Kólumbíumaðurinn Falcao, sem var seldur á rúmlega 41 milljón punda eftir að hafa verið fenginn á fimm milljónir tveimur árum fyrr. Fyrrnefndur Mangala kostaði síðan sex milljónir fyrir þremur árum. Einnig er hægt að nefna Pepe, sem fór á tæplega tuttugufalda upphæð til Real Madrid miðað við það sem hann kostaði til Porto, og Lisandro Lopez sem tífaldaðist í verði.

Mourinho kom þessum bolta af stað þegar hann tók við Chelsea og kippti þeim Ricardo Carvalho og Paulo Ferreira með sér, auk þess sem Jose Bosingwa kom síðar. Þessir þrír menn kostuðu Porto 2,5 milljónir punda en Chelsea greiddi 25-falda þá upphæð fyrir þjónustu þeirra.

Fleiri ensk lið hafa sótt til Porto, til að mynda Manchester United sem keypti Anderson á margfalda þá upphæð sem hann kostaði nokkrum árum fyrr. Alls hafa ensk lið keypt leikmenn frá Porto fyrir um 145 milljónir punda á síðustu tíu árum.

Einu sinni keypt meira en félagið seldi, og það borgaði sig

Aðeins eitt tímabil af síðustu tíu hefur Porto eytt meira í leikmannakaup en hefur komið í kassann fyrir selda leikmenn. Það var fyrir fjórum árum þegar menn eins og James Rodríguez, Joao Moutinho og Juan Manuel Iturbe voru fengnir til félagsins á rúmlega 35 milljónir punda. Allir eru þeir farnir í dag, á rúmlega 75 milljónir, þar af Rodríguez á 40 kúlur og bætti það í sumar þegar Real Madrid festi kaup á honum.

Það sem gerir þetta enn athyglisverðara er að fæstir af þessum mönnum sem félagið græðir svona ríkulega á eru komnir upp úr unglingastarfi þess. Njósnarar þess eru einfaldlega snillingar í að koma auga á hæfileika sem síðan margfaldast í verði. Slíkir viðskiptahættir eru ansi eftirsóttir í fótboltanum í dag og eflaust vildu margir eigendur geta leyft sér jafn ríkulegan arð og eigendur Porto hafa tök á.