Sumar Sirkus Íslands á sýningu.
Sumar Sirkus Íslands á sýningu. — Ljósmynd/Jeaneen Lund
Páll Fannar Einarsson pfe@mbl.is Sirkus Íslands hefur verið á faraldsfæti um landið í sumar, en að sögn Margrétar Erlu Maack sirkusdrottningar hafa sýningarnar gengið mjög vel.

Páll Fannar Einarsson

pfe@mbl.is

Sirkus Íslands hefur verið á faraldsfæti um landið í sumar, en að sögn Margrétar Erlu Maack sirkusdrottningar hafa sýningarnar gengið mjög vel. „Við vitum að við eigum okkar aðdáendur í Reykjavík, enda höfum við sýnt mikið í borginni undanfarin sjö ár. Það var því spennandi verkefni að fara með sýningarnar út á land,“ segir Margrét.

Farandsýningarnar hófust á Ísafirði með látum en eftir viku stopp þar færði hópurinn sig til Akureyrar. Eftir tveggja vikna stopp á Akureyri fór hópurinn suður til Selfoss en í gær hófust tjalduppsetningar í Reykjanesbæ, þar sem sýningar hefjast á morgun. „Við ákváðum að byrja á Ísafirði, þar sem nokkrir úr hópnum eru þaðan. Á Akureyri gekk brjálæðislega vel og var til að mynda uppselt á allar fjölskyldusýningar okkar seinni vikuna. Ástandið var svipað á Selfossi, en þar stóð fólk í biðröðum eftir ósóttum miðum um helgina og ef séns væri að koma fleiri áhorfendum fyrir. Við erum því mjög spennt fyrir því að sýna í Reykjanesbæ,“ segir Margrét.

Sýningum lýkur á sama stað og þær hófust, í Reykjavík, dagana 20.–24. ágúst næstkomandi, en um 12.000 manns hafa séð sýningarnar í sumar. „Þegar maður talar við erlenda vini sína og segir þeim frá því hversu margir hafa séð sýningarnar miðað við fjölda íbúa verða þeir alveg steinhissa. Það er því voða gaman að upplifa þetta allt saman,“ segir Margrét.