Reynsla Hafdís Sigurðardóttir er reynslunni ríkari eftir keppni á hennar fyrsta stórmóti.
Reynsla Hafdís Sigurðardóttir er reynslunni ríkari eftir keppni á hennar fyrsta stórmóti. — Morgunblaðið/Eva Björk
Hvorki Ásdís Hjálmsdóttir né Hafdís Sigurðardóttir náðu að komast í úrslit í sínum greinum þegar þær kepptu í undanrásum í spjótkasti og langstökki á fyrsta degi Evrópumótsins í frjálsíþróttum í Zürich í Sviss í gær.

Hvorki Ásdís Hjálmsdóttir né Hafdís Sigurðardóttir náðu að komast í úrslit í sínum greinum þegar þær kepptu í undanrásum í spjótkasti og langstökki á fyrsta degi Evrópumótsins í frjálsíþróttum í Zürich í Sviss í gær.

Lengsta stökk Hafdísar í langstökkinu í gærkvöld kom í þriðju og síðustu tilraun þegar hún stökk 6,27 metra (vindur 0,0 m/s.). Hafdís endaði í 16. sæti forkeppninnar, en 12 efstu komust í úrslitin. Til þess að komast í þau hefði Hafdís þurft að bæta Íslandsmet sitt, sem er 6,41 metrar um fjóra sentimetra. „Þetta var skemmtilegt, en nokkuð stressandi,“ sagði Hafdís við Morgunblaðið í gærkvöld, en hún þreytti frumraun sína á stórmóti í gær.

Kröfuhörð við sjálfa sig

„Upphitunin var rosalega góð hjá mér og ég vel stemmd. En svo stökk ég vel fyrir aftan planka í fyrstu tveimur stökkunum, og það sem ég gerði gekk eiginlega engan veginn,“ sagði Hafdís.

Fyrstu tvö stökk Hafdísar voru 5,84 metrar og 5,89 metrar og hún var ekki sátt við sig eftir þau. „Ég er rosalega kröfuhörð við sjálfa mig og átti þess vegna hálferfitt eftir fyrstu tvö stökkin. Þetta var bara eitthvað sem gerist ekki hjá mér lengur að ég stökkvi ekki yfir sex metrana.“

„Ég náði allavega að lengja mig talsvert í síðasta stökkinu. Ég endaði í 16. sæti sem er mun ofar en sætið sem ég var skráð í inn á mótið hvað fyrri árangur varðar. Ég var alls ekkert langt frá 12. sætinu heldur þannig. En það er súrt að horfa upp á þetta, því ég ætlaði mér meira. En ég get alveg séð eitthvað jákvætt út úr þessu. Það þarf bara að minna mig á þetta jákvæða, því ég er svo kröfuhörð við sjálfa mig,“ sagði Hafdís.

Ásdís í 13. sæti í þriðja sinn

Ásdís Hjálmsdóttir var hársbreidd frá því að komast í úrslit í spjótkasti kvenna. Tólf komust í úrslit, en Ásdís endaði í 13. sæti og mældist lengsta kast hennar í forkeppninni 56,36 metrar. Þetta er í þriðja sinn sem Ásdís endar í 13. sæti á stórmóti, því hún endaði í sama sæti á HM 2011 og EM 2012. thorkell@mbl.is