Áning Ferðahópurinn hvíldi lúin bein og hesta í Herdísarvík í næstsíðasta áfanga skáferðarinnar þvert yfir Ísland, frá Fonti á Reykjanestá.
Áning Ferðahópurinn hvíldi lúin bein og hesta í Herdísarvík í næstsíðasta áfanga skáferðarinnar þvert yfir Ísland, frá Fonti á Reykjanestá. — Morgunblaðið/RAX
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Manni er sagt að það sé erfiðast að hætta, eftir svona langan túr,“ sagði Ágúst Harðarson, hestamaður af Akranesi, þegar ferðahópur áði í Herdísarvík í Selvogi í gær.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Manni er sagt að það sé erfiðast að hætta, eftir svona langan túr,“ sagði Ágúst Harðarson, hestamaður af Akranesi, þegar ferðahópur áði í Herdísarvík í Selvogi í gær. Hópurinn hefur riðið á ská yfir landið, frá Fonti á Langanesi og lýkur ferðinni úti á Reykjanesi í kvöld.

„Þetta átti að verða stór ferð, þær verða ekki mikið stærri en þessi,“ sagði Steinunn Guðbjörnsdóttir af Álftanesi, upphaflegur skipuleggjandi ferðarinnar. Tilefnið var að hún varð fimmtug í maí og eitthvað eftirminnilegt átti að gera í sumar. Hún safnaði um sig hópi af Álftanesi og víðar að. Einhverjir heltust úr lestinni áður en lagt var af stað en það tókst að fylla í skörðin. „Maður á aldrei að hætta við svona hluti,“ sagði Steinunn. Sex riðu alla leiðina og tveir eru með þeim til að annast trússið. Ferðafélagarnir eru á aldrinum frá fimmtán ára og upp undir áttrætt.

Lagt var af stað frá Fonti á Langanesi 27. júlí svo hópurinn hefur verið hálfa þriðju viku á ferðinni. Dagleiðirnar hafa verið frá 26 og upp í 60 kílómetra. „Hálendið var erfiðast, langar dagleiðir og grýttar götur,“ sagði Jörundur Jökulsson og bætti við: „Það er ágætt að sjá það einu sinni af hestbaki.“ Hann sagði að þau hefðu verið heppin með veður, aðeins einu sinni þurft að taka fram regngallana og lítið hefði verið í jökulánum.

Einstök upplifun af náttúrunni situr eftir í huga fólksins, auk samverunnar við ferðafélagana. Leiðin um Laxárgljúfur er þeim öllum eftirminnileg, að sjá gljúfrin í þeirri miklu nánd sem það gefur að ríða þar um. Hópurinn fékk víða til liðs við sig staðkunnuga leiðsögumenn og sagði Jörundur að það hefði aukið mjög á gildi ferðarinnar.

Í heildina gekk ferðin framar björtustu vonum. Hrossin eru svo vel haldin að einhver sagði að þau þyrftu að fara í svelti eftir túrinn – og jafnvel reiðmennirnir sjálfir.