Lárus H. Bjarnason
Lárus H. Bjarnason
Eftir Lárus H. Bjarnason: "Því hvet ég mennta- og menningarmálaráðherra og nánustu ráðgjafa hans til þess að hugsa stórt, velja forgangsmálin af kostgæfni og sætta sig við að góðir hlutir gerast hægt."

Ein af styrkum stoðum íslensks samfélags er bærilegt skólakerfi allt frá leikskóla til háskóla. Efnahagsleg velsæld Íslendinga í framtíðinni veltur mjög á hvernig okkur tekst að viðhalda þessu kerfi og þróa sem farsællegast. Fyrir skömmu birti mennta- og menningarmálaráðuneytið „Hvítbók um umbætur í menntun“ þar sem sjónum er beint að tveimur höfuðmarkmiðum; annars vegar að efla læsi í grunnskólum og hins vegar að fjölga nemendum sem ljúka framhaldsskólanámi á tilsettum tíma. Veigamesta aðgerðaáætlunin varðandi framhaldsskólann er að stytta námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Þarft er að velta vandlega fyrir sér bæði ávinningi og fórnarkostnaði slíkrar ráðstöfunar og jafnframt hvort vera megi að aðrar umbætur séu brýnni. Hvítbókinni er ætlað að efla umræðu um aðgerðir til úrbóta í menntamálum og á þeim forsendum vil ég benda á tiltekin atriði sem ég tel ekki hægt að leiða hjá sér í alvöru stefnumótun.

Raungreina- og tæknimenntun ein af undirstöðum hagvaxtar

Eitt er að raungreinakennslu í grunnskólum hefur verið leyft að drabbast niður undanfarna áratugi þrátt fyrir að reynsla fjölmargra þjóða sýni að sterk staða raungreina- og tæknimenntunar er meðal undirstaðna hagvaxtar og velferðar til lengri tíma. Sé kynningu og námi í þessum greinum ábótavant í grunnskóla sækja færri í frekara nám á þessu sviði auk þess sem skortur verður á vel menntuðum kennurum síðar meir en sú virðist einmitt hafa orðið raunin hér á landi. Annað er að miðstýring í íslenska skólakerfinu er að mörgu leyti minni en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Því fylgir hætta á að nauðsynleg stýring, samræming og viðmið verði ófullnægjandi. Hérlendis eru ekki samræmd lokapróf, hvorki í grunnskóla né framhaldsskóla, og í háskólunum eru ekki samræmdar kröfur þótt einstakar prófgráður bjóðist við fleiri en einn þeirra svo sem í kennarafræðum, hjúkrunarfræði og lögfræði. Samt á stúdentspróf að veita aðgang að háskólanámi og meistarapróf í lögfræði að lykilstörfum í réttarríkinu svo dæmi séu tekin. Nú er svo komið er að háskóladeildir sem vilja takmarka aðgang hafa ekki önnur úrræði til þess að gera upp á milli nemenda en að halda sérstök inntökupróf. Stúdentsprófið er ónýtt til þess arna vegna vegna þess hve námskröfur og þar með einkunnir í einstökum áföngum byggjast á ólíkum forsendum. Til dæmis segir í nýrri skýrslu um úttekt á stærðfræðikennslu í níu framhaldsskólum að í stærðfræðiáfanga með sama heiti séu kröfur svo ólíkar milli skóla að nemandi gæti fengið hæstu einkunn í þeim skólum þar sem minnstar kröfur eru en sama kunnátta myndi vart duga til að ljúka áfanganum í öðrum skólum.

Skammtímahugsun í íslenskri pólitík

Spyrja má hvort sá sparnaður að halda ekki samræmd próf skili sér til samfélagsins þegar í staðinn þarf að halda kostnaðarsöm inntökupróf og upp sprettur ýmiss konar námskeiðahald þeim til undirbúnings sem einnig kostar sitt. Einnig má velta því upp hvort hagkvæmt sé og skynsamlegt fyrir smáþjóð að reka fjórar lagadeildir. Þessi dæmi um sérkenni íslenskra menntamála vekja miklu meiri undrun meðal norrænna kollega minna heldur en fjögurra ára menntaskóli. Döpur staða raungreina- og tæknimenntunar sem fyrr var nefnd er að mínu mati eitt dýrkeyptasta sinnuleysi yfirvalda í menntamálum 21. aldarinnar og á því máli eru því miður hvorki einfaldar né skjótvirkar lausnir. Slík mikilvæg mál sem vísa langt inn í framtíðina hljóta ekki verðskuldaða athygli ráðamanna vegna inngróinnar skammtímahugsunar í íslenskri pólitík og skorts á samfélagslegri sátt um undirstöður velferðar. Í heilbrigðisgeiranum þekkjum við til að mynda sífelldar breytingar á reglum og skipulagi afmarkaðra þátta, harkalegan niðurskurð og margvíslegt óöryggi án trúverðugrar framtíðarsýnar. Enn bíðum við eftir varanlegu og stöðugu fyrirkomulagi húsnæðislána því þar hafa kerfin ítrekað siglt í strand, kerfi sem á sínum tíma voru óskabörn viðkomandi ráðherra og haldið var fram að myndu leysa allan vanda fljótt og vel. Við þurfum sárlega á því að halda að hefja íslensk stjórnmál yfir það að einn flokkur eða ein ríkisstjórn tefli fram aðgerðaáætlun sem þurfi að framkvæmast á einu kjörtímabili en verða ella ómerk með öllu. Slíkt á einfaldlega ekki við um ýmis veigamestu velferðamálin sem eru þess eðlis að haldbær árangur mælist ekki á líftíma einnar ríkisstjórnar.

Endurskoða þarf menntastefnu til framtíðar

Menntamálin mega ekki við skammsýni. Því hvet ég mennta- og menningarmálaráðherra og nánustu ráðgjafa hans til þess að hugsa stórt, velja forgangsmálin af kostgæfni og sætta sig við að góðir hlutir gerast hægt. Það er vissulega verðugt viðfangsefni að endurskoða stúdentsprófið með það fyrir augum að rækja sem best hið tvíþætta hlutverk þess að stuðla að almennri menntun og búa í haginn fyrir frekara nám á hinum ýmsu fræðasviðum. Þótt sammæli sé um það í háskólasamfélaginu að færni í íslensku, ensku og stærðfræði skipti hvað mestu máli sem undirbúningur háskólanáms má ekki gera lítið úr tilverurétti annarra námsgreina. Þær eru samofnar menningu okkar í miklu stærra samhengi og ástundun þeirra eflir læsi bæði á mannlegt samfélag og sjálfa náttúruna sem við eigum allt undir og erum hluti af. Þá bendi ég á að við endurskoðun menntastefnu til framtíðar ber að huga gaumgæfilega að því hvernig skólakerfið getur nýst við að raungera víðtæka forvarna- og lýðheilsustefnu sem er án efa kröftugasta meðalið gegn sívaxandi útgjöldum til heilbrigðismála. Í stuttu máli; látum menntapólitíkina snúast um að nýta tækifærin til þess að auka fjársjóð okkar í ungu fólki og framtíðinni.

Höfundur er rektor Menntaskólans við Hamrahlíð.

Höf.: Lárus H. Bjarnason