Fríða Birna Andrésdóttir fæddist 17. mars 1974. Hún lést 23. júlí 2014. Fríða Birna var jarðsungin 6. ágúst 2014.
Að kveðja hana Fríðu Birnu er einstaklega erfið stund. Hún Fríða Birna, glaðværa og brosmilda, er farin frá okkur allt of fljótt. Hún snerti líf og hjarta okkar í fjölskyldunni og allra sem í kringun hana voru.
Fríða Birna var vinkona, nágranni og vinnufélagi. Hún var einstaklega áræðin, skipulögð og brosmild og falleg jafnt að innan sem utan.
Við eigum margar skemmtilegar og góðar minningar sem við höldum á lofti í framtíðinni og minna okkur um leið á hvað það er sem skiptir máli í lífinu.
Við eigum eftir að sakna hennar og brossins hennar.
Við tileinkum þetta ljóð minningu um frábæra konu, Fríðu Birnu Andrésdóttur.
Vertu ekki grátinn við gröfina mína,
gáðu, ég sef ekki þar.
Ég er í leikandi ljúfum vindum,
ég leiftra sem snjórinn á tindum.
Ég er haustsins regn sem fellur á fold
og fræin í hlýrri mold.
Í morgunsins kyrrð, er vakna þú vilt,
ég er vængjatak fuglanna, hljótt og stillt.
Ég er árblik dags um óttubil
og alstirndur himinn að nóttu til.
Gráttu ekki við gröfina hér –
gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.
(Mary E. Frye)
Elsku Gummi, Markús, Anna Karen og Dimma, megi góðar minningar fylla hug ykkar og hjörtu. Megi góður Guð fylgja ykkur og styrkja um ókomin ár.
Ykkar vinir
Gróa, Auðunn og börn.