Litskrúðugt Ragnheiður Jóhannsdóttir í Mosfellsbæ prjónar og þæfir skrautlega skó af öllum stærðum og gerðum og selur undir nafninu Álfaskór. Skóna er vinsælt að nota sem inniskó en þeir eru með lítilli bjöllu á tánni.
Litskrúðugt Ragnheiður Jóhannsdóttir í Mosfellsbæ prjónar og þæfir skrautlega skó af öllum stærðum og gerðum og selur undir nafninu Álfaskór. Skóna er vinsælt að nota sem inniskó en þeir eru með lítilli bjöllu á tánni. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is „Það er ekki vafamál að hér í stokkum og steinum búa álfar og huldufólk. Þó að við sjáum það ekki finnum við hlýjuna og vinsemdina frá umhverfinu.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

„Það er ekki vafamál að hér í stokkum og steinum búa álfar og huldufólk. Þó að við sjáum það ekki finnum við hlýjuna og vinsemdina frá umhverfinu. Maður er svona klikkaður,“ segir Ragnheiður Jóhannsdóttir handverkskona og skellihlær. „Ég hef ekki séð álfa en ég lék mér nú hinsvegar við einhverja stelpu í gamla daga sem enginn kannaðist við nema ég, ég veit ekkert hvernig það var tilkomið en ég man bara hvað hún átti rosalega fallegan kjól.“

Ragnheiður prjónar og selur skó undir nafninu Álfaskór. Skórnir, sem flestir nota sem inniskó, eru handprjónaðir úr íslenskri ull og þæfðir. Litskrúð einkennir þá en álfar eiga einmitt að vera fyrir litrík og þægileg föt. Erfitt getur þó verið að læðast í skónum því bjalla er á uppbrettri tánni sem gerir þá enn skemmtilegri.

Bokkubrækur og hálsskraut

Ragnheiður er menntuð handavinnukennari og hefur alla tíð prjónað mikið. Hún er hætt að vinna og voru Álfaskórnir liður í að hafa eitthvað „lítið og sætt að gera í ellinni“, eins og hún orðar það. Það hefur þó aldeilis undið upp á sig og nú situr Ragnheiður við öllum stundum og prjónar og þæfir enda eftirspurnin eftir skónum næg. Framleiðslan hefur líka stækkað því hún gerir einnig töskur úr þæfðri ull og fiskroði og nýlega hóf hún að þróa skrautleg hálsmen úr ull. Þau vöktu lukku á nýafstaðinni Handverkshátíð á Hrafnagili þar sem Álfaskór voru með bás.

Bokkubrækur er líka nýjung hjá Ragnheiði en um er að ræða prjónaðan gjafapoka utan um flöskur. „Mig vantaði umbúðir utan um gjöf, ég ætlaði að kippa með mér vínflösku í afmæli hjá umhverfissinna svo ég fékk þá hugmynd að það væri sniðugast að prjóna utan um flöskuna. Þetta gerði þvílíka lukku og umbúðirnar eru umhverfisvænar og hægt að nota aftur og aftur. Nafnið Bokkubrók kom svo frá góðum Skagfirðingi, mér fannst flöskupoki ekki nógu fallegt orð og hann stakk upp á Bokkubrók því þetta hafði verið kallað það þegar farið var með nesti á engjarnar á hans heimili.“

Ragnheiður lætur þetta þó ekki duga sér því yfir sumartímann er hún með handavinnukennslu fyrir ferðamenn á Hótel Laxnesi í Mosfellsbæ og yfir vetrartímann er hún með helgarnámskeið í handavinnu í Borgarnesi.

„Það eru til börn á öllum aldri“

„Ég fékk hugmyndina að álfaskónum fyrir sjö árum en svo tók alveg tvö ár að þróa hana og koma í allar stærðir. Ég hugsaði þetta ekki fyrst sem fullorðinsskó, bara fyrir börn, en ég komst mjög fljótt að því að það eru til börn á öllum aldri. Fólk sér einhvern húmor í þessu,“ segir Ragnheiður. Hugmyndina fékk hún þegar lítil stelpa kom í heimsókn til hennar og fór að leika sér með litskrúðuga spotta sem Ragnheiður geymdi í poka. „Hún spurði hvort ég gæti prjónað sokka á sig úr litunum sem hún var búin að tína fram. Hún sagðist eiga kisa og það væri gaman að geta leikið við hann. Ég prjónaði þá venjulega sokka með bjöllu á tánum en bjallan slóst alltaf í gólfið svo ég fór að vinna í því að þróa tá sem er svona uppbrett.“