Kvennafjöld Kvennarappsveitin Reykjavíkurdætur kemur fram á Gærunni um helgina.
Kvennafjöld Kvennarappsveitin Reykjavíkurdætur kemur fram á Gærunni um helgina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Yfir 100 tónlistarmenn koma fram á tónlistarhátíðinni Gærunni sem hefst í kvöld á Sauðárkróki og er nú haldin í fimmta sinn.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Yfir 100 tónlistarmenn koma fram á tónlistarhátíðinni Gærunni sem hefst í kvöld á Sauðárkróki og er nú haldin í fimmta sinn. Tónlistaratriði hátíðarinnar eru 24 og fara tónleikar fram í húsnæði Loðskinns, einu sútunarverksmiðju landsins, skemmu sem gærur eru geymdar í stóran hluta ársins og hátíðin dregur nafn sitt af. Hátíðin hefst með sólóistakvöldi í kvöld kl. 20 á skemmtistaðnum Mælifelli og á morgun og laugardaginn verður leikið í skemmu Loðskinns frá kl. 19. Sólóistarnir sem hefja hátíðina eru Hafdís Huld, Sister Sister, Hlynur Ben, Val-kirja og Bergmál. Á morgun troða upp Kiriyama family, Úlfur Úlfur, HIMBRIM, Johnny and the Rest, Myrká, The Bangoura Band, Sjálfsprottin spévísi, Una Stef, Klassart og Boogie Trouble. Á lokakvöldi Gærunnar koma svo fram Dimma, Reykjavíkurdætur, Nykur, Rúnar Þóris, Kvika, Mafama, Skúli mennski, Beebee and the Bluebirds og Sunny side road.

Hátíð fyrir mikla tónlistarunnendur

Laufey Kristín Skúladóttir er einn skipuleggjenda hátíðarinnar og sagði hún allt að verða tilbúið þegar blaðamaður ræddi við hana í gær. Búið að flytja gærurnar úr skemmunni, þrífa gólfið, verið að setja upp sviðið og hljóðkerfið á leiðinni. Laufey segir áherslu lagða á að bjóða upp á fjölbreytni í tónlistarstefnum á hátíðinni, þekkta flytjendur í bland við lítt þekkta. „Þetta er hátíð fyrir mikla tónlistarunnendur sem eru kannski einskorðaðir við einhverja eina stefnu, sem vilja hlusta á eitthvað fjölbreytt og eitthvað nýtt,“ segir Laufey.

Á hátíðinni megi finna eitthvað fyrir alla og yfirlýst markmið hátíðarinnar sé að kynna nýjar hljómsveitir til leiks, að gefa þeim lítt þekktari tækifæri til að spila fyrir fullan sal af fólki með stóru og flottu hljóðkerfi. „Að kynna sig aðeins, fá smá reynslu og jafnvel mynda einhver tengsl við aðra tónlistarmenn,“ segir Laufey.

– Hvernig fer valið á flytjendum fram?

„Við auglýsum eftir umsóknum á vorin og hljómsveitir senda okkur umsóknir,“ svarar Laufey. Í fyrra léku 22 hljómsveitir á föstudegi og laugardegi, 11 hvort kvöld og til viðbótar þeir tónlistarmenn sem komu fram á sólóistakvöldi. „Við ákváðum að fækka þeim aðeins í ár. Það er eitthvert trend núna að hljómsveitir eru fjölmennari,“ segir Laufey.

Það verður iðandi mannlíf á Sauðárkróki yfir helgina, 600 miðar í boði á hátíðina, aldurstakmark 18 ár en þeir sem eru yngri geta sótt hátíðina í fylgd með foreldri eða forráðamanni og börn undir 12 ára aldri fá frítt inn. Miðasala fer fram á midi.is og í Gestastofu Sútarans á Sauðárkróki. Vefsíðu Gærunnar má finna á slóðinni gaeran.is.