Runólfur Ingólfsson fæddist 20. júní 1947. Hann andaðist 31. júlí 2014. Útför hans fór fram 9. ágúst 2014.

Fallinn er frá bróðir okkar Runólfur, eða Rulli, eins og við í fjölskyldunni kölluðum hann. Rulli var aðeins 67 ára að aldri, sá þriðji í röðinni af fimmtán systkinum. Mig langar að segja frá æsku okkar í stórum dráttum.

Foreldrar okkar voru Ingólfur Hannesson og Sigríður Sólveig Runólfsdóttir. Þau fluttu í Kópavog um 1946, voru þar frumbyggjar og ráku stórt hænsnabú á sunnanverðu Kársnesinu.

Við systkinin tókum virkan þátt í rekstri búsins. Þá var Kópavogur bara lítið sveitaþorp með örfáum íbúðarhúsum og sumarbústöðum. Vegir voru bara malarvegir og engar gangstéttir.

Það var mikið frjálsræði að alast upp í Kópavogi á þessum árum. Við bjuggum við sjóinn og áttum lítinn árabát. Rulli og Grímur elsti bróðir okkar voru aðalræðararnir og þá var róið út í Arnarnes að skoða fuglalífið eða út í Gálgahraun þar sem var gaman að skoða hraunið, klettana og tína ber. Það var alltaf sól á sumrin og mikill snjór á veturna og mikið um leiki og fjör. Strákaleikirnir voru oft tengdir teygjubyssum og jakahlaupum.

Rulli var fyndinn, stríðinn, uppátækjasamur og hnyttinn í tilsvörum. Í æsku okkar langaði mig oft að vita eitt og annað og þá voru engar tölvur og ekki einu sinni sjónvarp. Þá var best að spyrja Rulla og þar fékk ég svörin sem mig vantaði. Rulli tók hefðbundið gagnfræðapróf í Gagnfræðaskóla Kópavogs og fór síðan í Iðnskólann í rafvirkjun.

Fyrir rúmum 40 árum kynntist Rulli Guðbjörgu Friðriksdóttur bankastarfsmanni til margra ára. Guðbjörg átti tvö börn fyrir, Bjarna og Margréti, og saman eignuðust þau tvö börn, Sigríði Sólveigu og Friðrik. Guðbjörg hafði búið á Bíldudal í æsku og þangað fluttu þau fljótlega eftir að þau hófu búskap. Runólfur var víðlesinn og mikill náttúruunnandi, hann gróðursetti mikið af trjám á Bíldudal og víðar. Rulli var svæðisstjóri hjá Orkubúi Vestfjarða, og vann þar þar til hann veiktist.

Horfinn er nú mikill öðlingur og góður bróðir og blessuð sé minning hans.

María.

Elsku Rulli frændi er farinn frá okkur fyrir fullt og allt. Skarð er komið í stóran systkinahóp en hann er sá fyrsti af systkinunum fimmtán frá hænsnabúinu að Sunnubraut í Kópavogi sem kveður þennan heim.

Ég man eftir Rulla frænda á Sunnubrautinni þegar ég bjó hjá ömmu Siggu og hann og Guðbjörg komu í bæjarferð, Þá var hann bara eins og heima hjá sér og smellpassaði í heimilislífið þó að hann væri bara hjá okkur í stutta stund í einu. Ég minnist einnig þess þegar Rulli varð fimmtugur og hélt heljarinnar veislu á Bíldudal um sumarið og allir mættu. Við hjónin vorum þá tiltölulega nýbyrjuð að vera saman og fórum vestur ásamt flestum systkinunum, það var heldur betur ævintýri og Rulli frændi hrókur alls fagnaðar. Helst minnist ég þó þess að Rulli frændi var pabbi hennar Siggu frænku, hann var einstaklega góður maður og öllum líkaði vel við hann.

Síðasta árið var erfitt fyrir Rulla og fjölskylduna hans en enginn bjóst við að hann færi svona fljótt. Elsku Guðbjörg, Bjarni, Magga, Sigga, Frikki, makar og börn, söknuður ykkar er mikill, megi minningin um góðan og hjartahlýjan föður ylja ykkur um ókomna tíð.

Innilegar samúðarkveðjur,

Lilja Bjarklind,

Sigurður og synir.