[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Þórarinn fæddist í Reykjavík 14.8. 1944 en ólst upp á Akureyri og átti þar heima til tvítugs.

Jón Þórarinn fæddist í Reykjavík 14.8. 1944 en ólst upp á Akureyri og átti þar heima til tvítugs. Hann var í sveit á sumrum á Nípá í Kaldakinn, var eitt sumar kaupamaður hjá Sigurði Lúther Vigfússyni á Fosshóli og auk þess í siglingum með föður sínum og var þá léttadrengur og messastrákur á mt. Hamrafelli.

Jón gekk í Barnaskóla Akureyrar, var einn vetur í Núpsskóla í Dýrafirði og lauk stúdentsprófi frá MA 1964. Hann lauk kandídatsprófi í sagnfræði frá HÍ 1972 og varði doktorsritgerð við Háskólann í Gautaborg í Svíþjóð haustið 1995.

Á unglingsárum vann Jón nokkur sumur í síldarverksmiðjunni í Krossanesi við Eyjafjörð og var í siglingum á skipum Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Jón var stundakennari við MR 1968-71, kennari við MS 1974-80, stundakennari við heimspekideild HÍ 1984-89 og 1995-96. Hann var rannsóknaprófessor við HA frá 2005.

Á árunum 1995-2005 var Jón forstöðumaður Rannsóknaseturs í sjávarútvegssögu á Hafrannsóknastofnun. Á þeim árum var hann í forystu alþjóðlegs hóps fræðimanna sem vann að ritun sögu sjávarútvegs á Norður-Atlantshafi og kom 1. bindi hennar út í Þýskalandi árið 2009.

Á þessum árum vann hann einnig að ritun sögu sjávarútvegs á Íslandi sem kom út í þremur bindum á árunum 2002-2005. Ritstörf hafa verið meginstarf Jóns undanfarin ár og hefur hann skrifað og annast útgáfu á liðlega 40 bókum, auk fjölmargra þýðinga og fjölda greina sem birst hafa í tímaritum hér heima og erlendis. Nýjasta bók hans, ævisaga Winstons S. Churchill, kemur út í dag hjá Sögufélaginu.

Einvígi Friðriks og Larsen

Skák hefur verið helsta áhugamál Jóns frá unglingsárum. Hann tefldi fjórum sinnum í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands, var tvívegis í sveit Íslands á heimsmeistaramóti stúdenta í skák, varð hraðskákmeistari Reykjavíkur 1972 og Bréfskákmeistari Íslands 1984. Hann skrifaði skákþætti í Morgunblaðið 1972-76 og sá, ásamt öðrum, um skákþætti í Ríkisútvarpinu 1976-89.

Byrjaðir þú ungur að tefla, Jón?

„Nei, ég var nú ekkert undrabarn. Þegar ég var á tólfta ári var skákeinvígið fræga um Norðurlandameistaratitilinn, milli Friðriks og Larsen, háð í Sjómannaskólanum. Þetta var mikið fréttaefni enda var stolt og metnaður okkar Íslendinga gegn Dönum í hámarki á þessum árum.

Strákar á mínu reki voru næmir fyrir spennunni og keppnisandanum og ég held að fjölmargir unglingar hafi fylgst með þessari viðureign, lært mannganginn og byrjað að spreyta sig við taflborðið.

Þannig var það í mínu tilfelli og síðan hef ég haft ómælda ánægju af taflmennsku og skákbókmenntum. Auk þess hefur maður í gegnum tíðina eignast fjölda góðra vina vegna skákáhugans.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns er Elín Guðmundsdóttir, f. 12.9. 1945, matvælafræðingur. Foreldrar hennar: Guðmundur Karlsson, f. 22.11. 1908, d. 25.12. 1983, framkvæmdastjóri, og Kristjana Magnúsdóttir, f. 15.2. 1926, húsfreyja.

Börn Jóns og Elínar eru Guðmundur Sverrir Þór, 24.4. 1975, hagfræðingur og ritstjóri, búsettur í Svíþjóð, en eiginkona hans er Dana Magnúsdóttir, f. 30.3. 1975, sameindalíffræðingur; Ingi Björn Jónsson, 25.3. 1977, flugmaður hjá Icelandair, búsettur í Reykjavík; Edda Sólrún Jónsdóttir, f. 21.9. 1978, ferðafræðingur, búsett í Garðabæ en eiginmaður hennar er Jón Heiðar Hauksson, f. 14.5. 1973, bryti.

Barnabörnin eru Jón Þórarinn Þór, f. 22.6. 2003, og Elín Ósk Jónsdóttir, f. 12.4. 2013.

Foreldrar Jóns Þórs voru Sverrir Þór, f. 16.10. 1914, d. 28.8. 1990, skipstjóri, og f.k.h., Ingibjörg J. Þór, 24.12. 1914, d. 7.6. 1977, húsfreyja.