José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að spænski framherjinn Diego Costa, sem Lundúnaliðið keypti frá Atlético Madrid í sumar, muni færa liðinu meira en bara mörk.
Chelsea reiddi fram 32 milljónir punda til að fá Costa í sínar raðir en framherjinn öflugi átti stóran þátt í að tryggja Atletíco Madrid spænska meistaratitilinn á síðustu leiktíð en hann skoraði 32 mörk á tímabilinu.
„Diego er liðsmaður sem skilar mikilli vinnu úti á vellinum. Hann er ekki bara mikill markaskorari. Þetta er leikmaðurinn sem við höfum beðið eftir að fá til okkar og hann er ástæðan fyrir því að við fengum okkur ekki framherja í janúarglugganum. Ég vænti mikils af honum og það er ekki að sjá annað en að hann hafi aðlagast liðinu vel,“ segir Mourinho, sem sá Costa skora tvö mörk á Stamford Bridge í fyrrakvöld þegar Chelsea lagði Real Sociedad í síðasta leik sínum fyrir átökin í ensku úrvalsdeildinni. gummih@mbl.is