Íslensk skip á makrílveiðum. Þau seldu í fyrra heilfrystan makríl til Rússlands fyrir 8,9 milljarða.
Íslensk skip á makrílveiðum. Þau seldu í fyrra heilfrystan makríl til Rússlands fyrir 8,9 milljarða. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Hagsmunir Íslendinga felast í því að Rússlandsmarkaður haldist opinn, segir í greiningu Íslenska sjávarklasans.

Rússland er sá markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir sem vex hvað hraðast, að mestu vegna tilkomu makrílútflutnings frá árinu 2008, og er afar mikilvægur markaður fyrir ákveðna afurðaflokka uppsjávartegunda og karfa. Þetta kemur fram í greiningu Íslenska sjávarklasans.

Árið 2013 seldu Íslendingar heilfrystan makríl til Rússlands fyrir 8,9 milljarða króna sem samsvarar 43% af öllu útflutningsverðmæti heilfrysts makríls. Þá var fluttur til Rússlands heilfrystur karfi að verðmæti 2,7 milljarðar króna sem samsvarar 42% af öllu útflutningsverðmæti af heilfrystum karfa.

Þótt rætt hafi verið um hugsanleg tækifæri íslenskra útflytjenda sjávarafurða af brotthvarfi Norðmanna af Rússlandsmarkaði er ljóst að aðalhagsmunir Íslendinga felast í því að Rússlandsmarkaður haldist opinn, segir í greiningunni.

Ákvörðun stjórnvalda í Rússlandi um að halda Íslandi fyrir utan nýsettar reglur um bann á innflutningi á ýmsum matvælum, þar á meðal sjávarfangi, hefur mikla þýðingu fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Innflutningsbannið tók gildi á föstudaginn var, en það er til eins árs. Rússland er stór markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir, einkum uppsjávartegundir, en útflutningstekjur af sölu sjávarafurða til Rússlands námu 18,6 milljöðrum króna á síðasta ári.

Vex myndarlega

Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Rússlands hefur vaxið myndarlega á undanförnum árum. Á tíu ára tímabili frá 2003 til 2013 jókst það úr tæplega 600 milljónum króna í 18,6 milljarða, sem samsvarar 32-faldri aukningu. Munar þar mest um útflutning á heilfrystum makríl, en jafnframt hefur útflutningur á heilfrystum karfa, heilfrystri loðnu, loðnuhrognum og heilfrystri síld stigið jafnt og þétt undanfarin tíu ár, segir í greiningunni

Útflutningur nokkurra annarra afurða hefur einnig aukist umtalsvert á síðustu árum, en segja má að Rússland sé gríðarlega mikilvægur markaður fyrir marga af þeim afurðaflokkum sem þangað eru seldir á annað borð.

Í fyrra var flutt út heilfryst síld fyrir 2,8 milljarða króna sem nemur 25% af útflutningsvirði þeirrar afurðar, heilfryst loðna fyrir 2,4 milljarða króna sem nemur 27% af öllu útflutningsvirði þeirra afurða og loðnuhrogn fyrir rúmlega einn milljarð króna sem nemur 20% af öllu útflutningsvirði loðnuhrogna.

Fram kemur í greiningunni að hafa beri í huga að frysting hefur verið helsta leið framleiðenda uppsjávarfisks til aukinnar verðmætasköpunar, í stað mjöl- og lýsisvinnslu. Á síðasta ári skapaði heilfrystur uppsjávarfiskur útflutningsvirði upp á 38 milljarða króna, en þar af skilar Rússlandsmarkaður 14 milljörðum, eða ríflega 37%. Því er ljóst að framleiðendur þessara afurða hafa töluverðra hagsmuna að gæta af áframhaldandi viðskiptum milli Íslands og Rússlands.

Tímabundið tækifæri í makríl vegna töluverðs magns af óseldum birgðum

Íslenska sjávarklasanum hafa borist fregnir af því að talsvert magn af óseldum makríl sé í frystigeymslum hér á landi eftir vertíð sumarsins og að sama skapi sé einhver hluti afla sumarsins geymdur óseldur í frystigeymslum erlendis. „Nú þegar rússneskum fyrirtækjum reynist ólöglegt að versla við norsk sjávarútvegsfyrirtæki er hugsanlegt að íslenski makríllinn seljist hraðar en ella. Til skamms tíma gæti innflutningsbann Rússa því haft góð áhrif á greiðslustöðu íslensku útgerðarinnar. Þó verður að setja þann fyrirvara að innflutningur til Rússlands er háður ströngum skilyrðum sem ekki allir makrílframleiðendur hér á landi uppfylla. Þá verður að teljast ólíklegt að bannið muni hafa mikil áhrif á verð á makríl,“ segir í greiningu Íslenska sjávarklasans.