Hafsteinn Sigurbjörnsson
Hafsteinn Sigurbjörnsson
Eftir Hafstein Sigurbjörnsson: "Til skráðra fjármuna einstaklings úr sameignarsjóði eru engin erfðaréttarákvæði."

Í þættinum Sjónarhóli hjá RÚV hinn 24. mars sl. var viðtal við Bjarna Guðmundsson tryggingafræðing um grein mína um Auðsöfnun lífeyrissjóðanna. Þar segir hann meðal annars að gegnumstreymiskerfi eins og er hjá ríkinu og opinberum aðilum hér á landi sé algengt í Evrópu og alfarið í Suður-Evrópu.

Hann tekur enga afstöðu til fullyrðingar minnar um að þessi auðsöfnun sjóðanna sé of mikil og skýrir á engan hátt tryggingafræðilegar ástæður til þessarar auðsöfnunar.

Mér kom mjög á óvart þegar Bjarni benti á að lífeyrissjóðakerfin hér væru uppbyggð sem einstaklingsbundin söfnun fjármuna til greiðslu lífeyris eftir að lífeyrisaldri er náð.

Nú eru flestir lífeyrissjóðir með sameignarsjóði annars vegar og séreignarsjóði hins vegar.

Í sameignarsjóðina er lögbundið að leggja 4% af öllum launum launþega og 6-8% frá launagreiðanda en í séreignarsjóðina er framlagið frjálst og samningabundið við launagreiðanda. Hvers vegna er þessi tvískipting? Og þá kemur nokkuð athyglisvert í ljós.

Til skráðra fjármuna einstaklings úr sameignarsjóði eru engin erfðaréttarákvæði, þannig að látist sjóðfélagi áður en hann kemst á eftirlaunaaldur og t.d. börn hans orðin 18 ára og maki látinn, þá verða þeir fjármunir sem á hans nafn hafa safnast eftir í sameignasjóðnum.

Þetta geta verið tugmilljónir króna.

Það er ómögulegt í stuttri grein að útskýra alla þá annmarka sem ég tel vera á því sameignarlífeyrissjóðakerfi sem hér er og byggir á persónubundinni söfnun peninga til lífeyris eftir að ákveðnum aldri er náð.

Ég ætla þó að nefna nokkur atriði sem ég tel athugaverð.

1.Peningar sem safnað er í sameignarsjóð njóta ekki erfðaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

2.Þeir gífurlegu fjármunir sem safnast hafa í þessa sjóði eru áhættufjármunir, eins og sannast hefur þegar sjóðirnir töpuðum hundruðum milljarða.

3.Þessir gífurlegu fjármunir eru á hendi aðila sem eru tilnefndir, ekki kosnir af eigendum af þröngum hópi forystumanna úr ASÍ og VSÍ.

Varðandi fyrsta atriðið er það augljóst að það verða miklir fjármunir eftir í sjóðunum frá því fólki sem nær ekki að verða 67 ára.

Varðandi annað atriðið vil ég nefna að það mikla vald sem þessi auður skapar er afskaplega vandmeðfarið. Afleiðingar þeirra ákvarðana sem stjórnendur sjóðanna taka í meðferð þessara fjármuna hafa óhjákvæmilega mikil áhrif út í þjóðfélagið.

Varðandi þriðja atriðið vil ég nefna þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem viðhöfð eru varðadi skipan manna í þessar vandasömu og valdamiklu stjórnunarstöður.

Það er til háborinnar skammar að ekki skuli vera auglýst og síðan kosið af lífeyrisgreiðendum um stöður í þessa sjóði.

Einnig vil ég nefna að verðtrygging lífeyrissjóðanna er engin trygging fyrir raungildi lífeyrissparnaðar.

Stjórnvöld geta fellt gengið (eins og tíðkaðist oft á árum áður) og þá skerðist uppsafnaður sparnaður að sama skapi.

Að byggja upp fjársjóði til lengri tíma með ótryggum gjaldmiðli, sem ekki er viðurkenndur hjá seðlabönkum annarra þjóða, er fráleitt.

Sterkasta sönnun þessarar fullyrðingar er sú staðreynd að yfir 30.000 einstaklingar eru að safna sér lífeyri í erlendri mynt hjá erlendum sjóðum. Þessir einstaklingar treysta augljóslega ekki þessu kerfi.

Seðlabankinn er kominn í vanda vegna þessa útstreymis gjaldeyris.

Sem dæmi eru fleiri og fleiri fyrirtæki að gera upp starfsemi sína í erlendri mynt.

Gegnumstreymiskerfið, eins og er hjá opinberum starfsmönnum, er eina örugga lífeyriskerfið sem hægt er að treysta á með tilliti til þess sem að framan greinir.

Slíkt kerfi er einfalt í framkvæmd, kostar margfalt minna í rekstri og er algerlega óháð áhættufjárfestingum.

Ég tel að stjórnvöld verði með lögum að stofna eitt sameiginlegt lífeyriskerfi allra launþega eins og það lífeyriskerfi sem opinberir starfsmenn hafa. Leggja niður þennan uppsafnaða óskapnað svonefndra frjálsra sameignarsjóða og yfirfæra framlög launþega úr þeim sjóðum yfir í nýjan sameignarsjóð allra launþega.

Það ætti í engu að skerða réttindi þeirra sem nú þegar hafa greitt í mörg ár í sameignarlífeyrissjóði, því yfirfærsla yrði persónubundin úr hverum sjóði. Tryggingastofnun ríkisins yrði þannig framkvæmdaaðili allra almannatrygginga. Þannig mundu allir launþegar sitja við sama borð varðandi ellilífeyri og örorkubætur. Lífeyrir opinberra starfsmanna er ríkistryggður og eins mundi verða með lífeyri allra almennra launþega. Séreignarsjóðir lífeyrissjóðanna gætu þess vegna starfað áfram óbreyttir.

Viðbótarsparnað við lögbundið framlag til lífeyris er hægt að fá með sömu ávöxtun og gefið hefur í ýmsum öðrum fjárfestingarstofnunum.

Um leið og þetta kæmist til framkvæmda kæmu gífurlegir fjármunir, um eitt þúsund og fimm hundruð milljarðar íslenskra króna (1.500.000.000.000 kr.), sem stjórnvöld gætu nýtt til ýmissa brýnna verkefna, t.d. húsnæðis og tækjakosts í heilbrigðisgeiranum, bættra samgangna o.fl.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Hafstein Sigurbjörnsson