Núllið Að sögn miðborgarstjóra verður almenningssalerni við Bankastræti 0 endurbyggt.
Núllið Að sögn miðborgarstjóra verður almenningssalerni við Bankastræti 0 endurbyggt. — Morgunblaðið/Kristinn
Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is Kaffihús og veitingastaðir í miðbæ Reykjavíkur þurfa að þola stríðan straum fólks sem eingöngu kemur inn til að nýta sér salernisaðstöðu staðanna.

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

Kaffihús og veitingastaðir í miðbæ Reykjavíkur þurfa að þola stríðan straum fólks sem eingöngu kemur inn til að nýta sér salernisaðstöðu staðanna. Hefur þetta gert það að verkum að margir velta því fyrir sér hvers vegna ekki séu fleiri almenningssalerni í miðbænum.

Starfsmenn kaffihúsanna Kaffitárs og Kaffi Sólon á Bankastræti og veitingastaðarins Le Bistro á Laugavegi voru sammála um það að töluvert væri um fólk sem kæmi inn á staðina til þess eins að nota salernið. Sólveig, starfsmaður Le Bistro, segir talsverðan fjölda fólks koma inn á staðinn á hverjum degi í þessum tilgangi. Hún segir þetta geta valdið óþægindum, sérstaklega þegar mikið sé að gera. „Fyrir utan kostnaðinn sem því fylgir í þrif og pappír og öðru,“ bætir hún við.

Þjónar veitingahússins Café Paris taka undir þetta, og segja oft á tíðum röð myndast á salerni staðarins. Klósettin eigi fyrst og fremst að þjóna viðskiptavinum, og geti það orðið vandamál þegar þeir þurfi að bíða í röð fyrir aftan fólk sem einungis komi inn til að nýta sér aðstöðuna.

Salernin til staðar en óvirk

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að almenningssalerni séu staðsett víðsvegar um miðbæ Reykjavíkur. Fjögur almenningssalerni séu í bílastæðahúsum í miðborginni, í Traðarkoti, Kolaporti, Vitatorgi og á Laugavegi 86-94. Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, segir þessar upplýsingar úreltar, enda sé búið að loka öllum klósettunum. „Það er enginn mannskapur frá okkur í húsunum og þar af leiðandi neyddumst við til að loka þessum klósettum,“ segir hún. „Það þarf að sinna þessu ef þetta á að vera opið.“

Almenningssalernin sem virk eru í miðbænum eru því aðeins þau sjö sjálfvirku salerni sem eru á Frakkastíg, Hlemmi, Hljómskálagarðinum, á Ingólfstorgi, Mæðragarði, Ráðhúsinu og á Vegamótastíg. Stærsta almenningssalerni miðborgarinnar er þó í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, að sögn Jakobs Frímanns Magnússonar, miðborgarstjóra Reykjavíkur. „Það er eitthvað sem ætti ekki að vera gert að viðvarandi ástandi,“ segir hann.

Peningar hafa ekki fengist

Árið 2006 var starfshópi falið að skoða málefni almenningssalerna í Reykjavík og skilaði hópurinn skýrslu og tillögum til úrbóta í júní sama ár sem enn er unnið eftir. Hópurinn lagði meðal annars til að Núllið í Bankastræti, þar sem áður var almenningsklósett, yrði endurbyggt. „Pípulagnir og allt slíkt er til staðar og það er búið að teikna upp hús sem yrði sýnilegt í suðurátt frá Bakarabrekkunni, en það hafa ekki enn fengist peningar í það verkefni,“ segir Jakob. Hann telur mikla þörf á fleiri almenningssalernum í miðborginni, enda sæki hundruð þúsunda manna borgina heim á hverju ári, og grunnþjónusta sem og salerni þurfi að vera til staðar. „Það þarf að mæta þessari nýju staðreynd sem blasir við núna með auknu streymi ferðamanna og bregðast hratt við,“ segir hann.