Sýnandi Hrefna Björg Gylfadóttir er nítján ára gömul og heldur sína fyrstu ljósmyndasýningu. Hún útilokar ekki að hún muni halda fleiri í framtíðinni en hún stundar nám á náttúrufræðibraut við Menntaskólann í Hamrahlíð.
Sýnandi Hrefna Björg Gylfadóttir er nítján ára gömul og heldur sína fyrstu ljósmyndasýningu. Hún útilokar ekki að hún muni halda fleiri í framtíðinni en hún stundar nám á náttúrufræðibraut við Menntaskólann í Hamrahlíð. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í strætóstoppistöðinni í Mjódd er ljósmyndasýningin Litróf eftir Hrefnu Björgu Gylfadóttur. Myndefnið er litríkt mannlíf Breiðholtsins og er verkefni sem m.a. miðar að því að efla hverfisvitund og jákvæða ímynd.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Breiðholtið er litríkt. Margir menningaheimar búa þar og byggingarnar eru fjölbreyttar og litskrúðugar. Þegar ég skoðaði ljósmyndirnar sem ég hafði tekið sá ég að ég heillaðist mest af litunum,“ sagði Hrefna Björg Gylfadóttir. Hún opnaði á dögunum sína fyrstu ljósmyndasýningu sem nefnist Litróf í strætóstoppistöðinni í Mjódd. Hægt er að skoða sýninguna fram í október. Myndirnar tók hún í sumar í Breiðholtinu.

Sýningin er hluti af verkefni sem nefnist Heiti potturinn og er á vegum Hins hússins. Verkefni miðar að því að efla hverfisvitund, stuðla að jákvæðri ímynd hverfisins og styðja við fjölbreytt og skemmtilegt samfélag í Breiðholti. Fólk á aldrinum 16-25 ára gat sótt um styrk. Lögheimili í hverfinu var skilyrði en Hrefna býr í Stekkjunum í Breiðholtinu.

Þegar hún myndaði í hverfinu kom það henni á óvart að alls staðar voru krakkar úti að leika sér. Mikið líf og fjör var „þrátt fyrir ekkert sérstaklega sólríkt sumar.“ Á rölti sínu um hverfið kom Selja- og Fellahverfið henni skemmtilega á óvart en hún hafði ekki kynnst mikið þeim hluta hverfisins áður.

Fólk á ferðinni

„Þegar ég fékk styrkinn ákvað ég að nýta tækifærið og gera eitthvað skemmtilegt á stað þar sem fólk er sífellt á ferð, því varð strætóstoppistöðin fyrir valinu,“ sagði Hrefna.

Myndefni sótti hún m.a. í fjölbreytt mannlíf í Mjóddinni, Breiðholtslaug og aðra staði þar sem fólk var að finna. „Mér finnst skemmtilegast að fá að mynda fólk sem maður rekst á og eitthvað er að gerast.“

Ungt fólk tregara í taumi að leyfa myndatöku

Hún sagði nokkuð vel ganga að fá leyfi til að mynda fólk en þó hefði hún oft fengið nei. Börn og gamalt fólk væri viljugra að leyfa myndatöku en ungt fólk, milli tvítugs og þrítugs. „Það er svolítið einkennilegt því við erum kynslóðin sem er alltaf að taka myndir af sjálfri sér og láta aðra mynda sig.“

Hún viðurkennir að það geti verið taugatrekkjandi að taka myndir af fólki sem hún þekki lítið, og að vinda sér upp að því og fá leyfi til að mynda. „Auðveldara var að fá leyfi hjá fólki í Danmörku og í Berlín,“ sagði Hrefna.

Í fyrrahaust stundaði hún nám í ljósmyndun við lýðháskólann Krabbesholm Hojskole í Danmörku. Henni líkaði skóladvölin mjög vel en í einu verkefninu brugðu nemendur sér til Berlínar að taka myndir.

„Námið var mjög skemmtilegt og gefandi. Það var gaman að prófa að fara út í listnám en ég hef alltaf verið meira í öðru námi,“ sagði Hrefna en hún er nítján ára gömul og stundar nám á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Auk námskeiða í ljósmyndun sat hún nokkur í hönnun.

Dönskukunnáttan orðin betri

Í náminu lærði hún m.a. myndbyggingu og að framkalla myndir svo fátt eitt sé nefnt. Dönskukunnáttan varð einnig betri. „Ég kunni að skrifa dönskuna en gat ekki talað en það var fljótt að koma með æfingunni.“

Hrefna er ánægð með viðbrögðin við sýningunni. Eins og stendur hefur hún ekki gert upp hug sinn hvað tekur við eftir menntaskólann. Hún reiknar þó fastlega með að skrá sig í háskólanám. Hvað verður fyrir valinu er óráðið. Eitt er víst að hún á alltaf eftir að hafa myndavélina við höndina.

Áhugi á ljósmyndun kviknaði á unglingsaldri

Áhugi Hrefnu á ljósmyndun kviknaði um 12 ára aldurinn en þá fékk hún myndavél að gjöf. „Þá fór ég að taka myndir og stuttu seinna safnaði ég mér fyrir betri myndavél. Ég tók töluvert af myndum af vinkonum mínum,“ sagði Hrefna.

Hún bendir á að eflaust hafi einnig spilað inn í að þegar hún var yngri lék hún sér einnig að því að búa til stuttmyndir ásamt systur sinni.