Í allt sumar hafa Sunnlendingar barmað sér vegna vætu og sólarleysis.

Í allt sumar hafa Sunnlendingar barmað sér vegna vætu og sólarleysis. Þeir eiga því sannarlega skilið góðviðrið í gær og dag, að mati Davíðs Hjálmars Haraldssonar sem sendir kveðju að norðan:

Í sumar þótti syðra kalt og blautt,

úr sólarleysi fólkið næstum dautt

í pirringi í pollum mátti sulla,

því rigni lengi rennur því í skap

við ramma svitalykt og gleðitap.

Þá grasserar og gyllinæð og drulla.

Nú sólin loks á Sunnlendinga skín

og sælu færir þeim og vítamín

og fólkið brosir, náfölt eins og næpa.

Og blessuð sólin bætir dapra lund

og bjargar þeim sem éta óðan hund.

Nú gleymd er bæði gyllinæð og ræpa.

Sigrún Haraldsdóttir tók undir þessi orð:

Gjöful sunna vermir völl,

vanga og augnalokin.

Nú er gömul ólund öll

úr mér burtu rokin.

Þá Ágúst Marinósson:

Eftir vonda vætutörn

veðráttan er orðin slík.

Vermir sólin borgarbörn

berstrípuð í Nauthólsvík.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Fía á Sandi, varð að sætta sig við að góða veðrið væri flutt suður. Hún setti upp gleraugun til að sjá hvernig heimilið liti út eftir sumarhótelreksturinn:

Í morgun var ég eitthvað svo

ergileg í framan.

Ákvað loks að þrífa og þvo

og það var bara gaman.

Sigurður Aðalsteinsson sendi þættinum skemmtilega kveðju: „Sá að þú varst að birta kveðskap frá fiskideginum mikla í Mogga í dag. Ég heiðraði Fiskidaginn mikla með nærveru minni í þetta skiptið og kannski eina skiptið, hver veit, ég er yfirleitt tepptur við hreindýraleiðsögn á þessum tíma og finnst óþarfi að hendast landshluta milli til þess eins að eta fisk, þó gefins sé! Mér fannst sannast þarna sem endranær það er við Jökuldælir segjum gjarnan: „Það er alveg jafn gott að fá sér vatn úr krananum eins og að borða fisk!“ Ég bruddi sjávarfangið sem aldrei fyrr, reyndar borða ég aldrei sjávarfang, svo það hljómar rökrétt og í tilefni þess varð mér þessi staka á munni:

„Vatnið“ hef ég vaskur brutt,

varð því ekkert hissa.

Fiskmetið jú staldrar stutt,

strax ég þurft´ að pissa.“

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com