[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Staðan er breytt vegna úrslita í öðrum riðlum, en samt hefði sigur í fyrri leiknum í Danmörku sett okkur í enn betri stöðu,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í gær. Landsliðshópurinn var þá tilkynntur fyrir leikinn mikilvæga gegn Dönum á Laugardalsvelli næstkomandi miðvikudag þegar liðin mætast í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Ísland er í mikilli baráttu um annað sæti síns riðils, en úr sjö undanriðlum komast fjögur stigahæstu liðin í öðru sæti í umspil um sæti á HM. Það er því mikið í húfi fyrir íslenska liðið að ná sem hagstæðustum úrslitum í þeim þremur leikjum sem liðið á eftir, enda segir Freyr þá alla vera lagða upp sem úrslitaleiki. Ísland og Danmörk gerðu 1:1-jafntefli ytra fyrr í sumar og virtust þá allar vonir um að komast í umspilið úti, en möguleikinn er hins vegar kominn upp á borðið á ný sem fyrr segir.

„Við getum þetta ennþá og ég trúi því að önnur úrslit muni falla með okkur. En fyrst og fremst snýst þetta um að vinna alla þá leiki sem eftir eru og Danir eru vissulega stærsta hindrunin,“ sagði Freyr, en þetta er í fyrsta sinn sem þjóðirnar mætast í landsleik hér heima.

Í landsliðshópnum nú eru tuttugu leikmenn og einungis fimm þeirra leika erlendis. Freyr tekur undir að það sýni vel hvað deildin hér heima hefur verið að styrkjast síðustu misseri.

„Ég er sammála því og ég hef séð marga mjög góða leiki í sumar og marga góða leikmenn, bæði sem eru í hópnum núna og fyrir utan,“ sagði Freyr, sem þarf að fylla skarð tveggja lykilmanna. Markvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir er að ná sér eftir aðgerð og Sif Atladóttir er meidd í baki og gæti orðið frá út tímabilið. Í þeirra stað koma þær Sonný Lára Þráinsdóttir, Breiðabliki, og Arna Sif Ásgrímsdóttir, Þór/KA, sem eiga hvorug landsleik að baki.

Undirbúinn fyrir spennustigið

Ísland á þrjá leiki eftir í undankeppninni og Freyr vill ekki fara fram úr sér þó möguleikinn sé enn til staðar.

„Ég hlakka til að takast á við verkefnið að undirbúa liðið fyrir leikinn enda vitum við öll að þetta er verkefni sem verður að klárast til þess að eiga möguleika. Ég er mest hræddur um að spennustigið gæti orðið of hátt, en að sama skapi er ég undirbúinn fyrir það svo við munum vinna þetta faglega og mæta vel undirbúin,“ sagði Freyr, sem segir gott skipulag vera svarið við sterku liði Dana.

„Þær eru sterkar að halda boltanum, tæknilega góðar og með mikla leikreynslu. Hápressa okkar í fyrri leiknum kom þeim svolítið á óvart og lykillinn er að leyfa þeim ekki að finna svæði. Við náðum því ágætlega í fyrri leiknum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson.

Landsliðshópurinn:

Markverðir:

Sonný Lára Þráinsdóttir, Breiðabliki

Sandra Sigurðardóttir, Stjörnunni

Þóra B. Helgadóttir, Fylki

Varnarmenn:

Ólína G. Viðarsdóttir, Val

Hallbera G. Gísladóttir, Val

Glódís Perla Viggósdóttir, Stjörnunni

Elísa Viðarsdóttir, Kristanstad

Anna Björk Kristjánsdóttir, Stjörnunni

Arna Sif Ásgrímsdóttir, Þór/KA

Miðjumenn:

Dóra María Lárusdóttir, Val

Sara Björk Gunnarsdóttir, FC Rosengård

Katrín Ómarsdóttir, Liverpool

Rakel Hönnudóttir, Breiðabliki

Fanndís Friðriksdóttir, Breiðabliki

Dagný Brynjarsdóttir, Selfossi

Guðný Björk Óðinsdóttir, Kristanstad

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Stjörnunni

Framherjar:

Hólmfríður Magnúsdóttir, Avaldsnes

Harpa Þorsteinsdóttir, Stjörnunni

Elín Metta Jensen, Val

Möguleikar Íslands
» Ísland er í öðru sæti riðilsins með 13 stig en Danmörk er stigi á eftir.
» Annað sætið í fjórum riðlum af sjö gefur sæti í umspili.
» Ísland er enn með lakasta árangurinn í öðru sæti, þarf að treysta á að önnur misstígi sig.
» Síðustu tveir leikir Íslands eru gegn Ísrael og Serbíu hér heima í september.