Hún Anna er lítil, hún er (bráðum) 25 ára trítill með augun svo falleg og skær. Hún er frekar ófríð þegar hún grætur og með skessulegan hlátur á köflum en hún er, líkt og vinur hennar Ari í barnavísunni, uppfull af spurningum sem foreldrar hennar geta ekki svarað.
Af hverju kemst „androgynous“-klæðnaður í tísku hjá konum en ekki körlum?
Er það af því að það er niðrandi fyrir karlmenn að líta á einhvern hátt út eins og kvenmenn?
Af hverju er viðkvæðið „Konur og börn fyrst“ þegar skip sekkur eða það þarf að bjarga einhverjum úr brennandi byggingu? Eru karlmenn betri í að brenna ekki?
Finnst konum óþægilegt að vera berar að ofan á almannafæri vegna þess að brjóst eru kynferðisleg eða eru brjóst kynferðisleg af því að þau sjást ekki ber nema í einrúmi?
Af hverju er unnið að því í leikskólum, grunnskólum og menntaskólum landsins að koma stelpum í iðngreinar og önnur „karlastörf“ en lítill (ef einhver) kraftur er í að fá karlmenn í hjúkrunarnám, leikskólakennarann eða önnur „kvennastörf“? Væru drengirnir að taka niður fyrir sig eða vantar okkur kannski ekki fólk í þessar greinar?
Af hverju bjargar prinsessan aldrei prinsinum?
Af hverju eru bikiní myndir í Playboy kallaðar klám en svipað uppstilltar myndir af olíubornum karlmönnum í Seventeen eru bara plaköt. Er það ekki klám ef það er ætlað unglingsstúlkum?
Af hverju eru konur frekar en karlar ákveðnir?
Af hverju er orðið „pussy“ notað yfir aumingja en stórar hreðjar lagðar að jöfnu við hugrekki og styrk? Eru eistu ekki einmitt viðkvæm, á meðan að það blæðir úr píkum í hverjum mánuði fyrir sakir mannkynsins?
Af hverju segjum við litlum stelpum „Hann er bara skotinn í þér,“ þegar strákar meiða þær? Er ofbeldi eða stríðni ásættanleg ef gerandinn er lélegur í að tjá tilfinningar sínar.
Vonandi verða þessar spurningar úreltar eftir nokkur ár, en það er frekar ósennilegt. Líklega verður Anna rassálfur til æviloka, en eins og faðir hennar sagði henni þá er betra að spyrja, þó að fátt sé um svör, en að þegja og verða einskis vísari. Ef við erum nógu mörg sem spyrjum okkur og aðra reglulega spurninga sem þessara er líka aldrei að vita nema þær komi einhverju til leiðar. annamarsy@mbl.is
Anna Marsibil Clausen