Starfsemi Expo mun flytjast yfir á Þóroddsstaði, þar sem VERT er til húsa.
Starfsemi Expo mun flytjast yfir á Þóroddsstaði, þar sem VERT er til húsa. — Ljósmynd/VERT
Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is VERT markaðsstofa hefur fest kaup á Expo af Festi. Fyrirtækið kemst þar með í hóp stærstu auglýsingastofa landsins.

VERT markaðsstofa hefur gengið frá kaupum á hluta af auglýsingastofunni Expo af Festi. Sameinað fyrirtæki mun bera nafn VERT markaðsstofu. Kaupverðið er trúnaðarmál á milli kaupanda og seljanda.

Með kaupunum meira en tvöfaldar VERT stærð sína og fer upp í nítján starfsmenn. Starfsmenn Expo voru 22 en um tólf þeirra munu fara til annarra starfa fyrir Festi og tengd félög.

Expo var áður til húsa á Skemmuvegi í Kópavogi en starfsemin flyst nú yfir á Þóroddsstaði í Skógarhlíð, þar sem VERT er með höfuðstöðvar sínar.

Festi, sem rekur verslanir eins og Krónuna, Nóatún, Kjarval, ELKO, Intersport og Bakkann vöruhótel, eignaðist auglýsingastofuna Expo í tengslum við kaup sín á nokkrum eignum Norvíkur fyrr á árinu.

Í tilkynningu segir að VERT markaðsstofa hafi verið stofnuð fyrir fimm árum, en á meðal helstu viðskiptavina fyrirtækisins eru Ölgerðin, Opin Kerfi, Heilsa, Allianz, Lýsi, Vistor, Microsoft, Kynnisferðir og Byko.

Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri VERT, segir það ánægjulegt að samningar skuli hafa náðst við Festi um sameiningu Expo og VERT. Með henni komist fyrirtækið í hóp með stærstu auglýsingastofum landsins. „Með sameiningunni fjölgar umtalsvert í liðinu hjá okkur og við verðum betur í stakk búin til að sinna bæði núverandi viðskiptavinum og taka á móti nýjum,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.