Kjarnakonur Janet Scott, Rachel Bailey og Gill Murray.
Kjarnakonur Janet Scott, Rachel Bailey og Gill Murray.
Undirrituð hefur frá upphafi fylgst spennt með þáttunum um lögreglurannsóknarkonurnar Scott og Bailey og haft nokkuð gaman af.

Undirrituð hefur frá upphafi fylgst spennt með þáttunum um lögreglurannsóknarkonurnar Scott og Bailey og haft nokkuð gaman af. Sakamálin sem birtast í þáttunum eru áhugaverð og fléttan góð auk þess sem ekki hefur skemmt fyrir að gaman hefur verið að fylgjast með lögreglukonum að störfum undir stjórn hinnar ofursvölu Gill Murray.

Nú bregður svo við að undirrituð er við það að missa áhugann á þáttunum og helgast það helst af því að klisjan um fórnir kvenna á framabraut er orðin alltumlykjandi í þáttunum. Konunum þremur sem eru í forgrunni, þ.e. Rachel Bailey, Janet Scott og Gill Murray hefur nú öllum mistekist að lifa eðlilegu fjölskyldulífi samhliða spennandi og krefjandi störfum sínum. Murray varð einstæð móðir þegar eiginmaður hennar þoldi ekki lengur velgengni hennar innan lögreglunnar. Bailey var ekki fyrr búin að giftast Sean McCartney þegar hún komst að því að hún gæti ekki deilt lífi sínu með neinum og eiginmaður Scott valdi að skilja við hana þar sem hún var aldrei heima hjá manni og börnum heldur alltaf í vinnunni. Hvers vegna þurfa framleiðendur endilega að falla í þessa ömurlega tilgerðarlegu klisju?

Silja Björk Huldudóttir

Höf.: Silja Björk Huldudóttir